Tuesday, March 31, 2009

watchmenblogg #2

Jæja þá ætla ég að fjalla aðeins meira um watchmen. Það var ýmislegt sem að var kannski frekar illskiljanlegt í hinni færslunni vegna þess að þar sem ég vissi hvernig framvinda mála yrði þegar ég sá myndina þá gerði ég einhvern veginn ráð fyrir að lesandinn hefði gert það líka og vissi þá alveg hvað væri í gangi. En núna ætla ég aðallega að tala um endann á myndinni og bókinni eða ég hafði hugsað mér að gera það. Ætla bara að sjá til hvert þetta leiðir mig allt. Byrjum bara á endanum.

Mér fannst óþægilegt að sjá endann í bíósalnum og það angraði mig mest var að ég mundi ekki almennilega hvernig hann hafði verið nákvæmlega í bókinni. Ég reyndi að leiða þetta hjá mér en einhvern veginn minnti mig að hann hefði verið öðruvísi. Ég verð samt að viðurkenna að ég hef ekki staðið við gefin loforð úr fyrri færslu og litið yfir söguna aftur því ég finn hana ekki, hún er einhvers staðar á kafi í draslinu mínu. Svo ég ætla ekki að taka neina ábyrgð á því sem ég staðhæfi hérna því ég get hæglega verið að fara með langt mál því sagan er mér ekki alveg í fersku minni.

SPOILER ALERT

Mig minnir að í bókinni hafi þetta verið eitthvað á þessa leið. Ozymandias sem ég kynnti fyrir ykkur í fyrradag ætlar að gefa bandaríkjunum og sovétríkjunum og bara heiminum öllum sameiginlegan óvin og safnar því saman öllu helsta fólkinu á sviði erfðavísinda, líftækni og fleiri vísindagreina auk þess sem hann ræður merkt listafólk og frægasta myndasöguteiknara í heimi. Allt fer þetta fram í leyni og allt fyllist af fréttum af því að þetta fólk sé að hverfa hægi vinstri. Hann ætlar að hanna lífverur sem lítur út fyrir að vera klikkaðar geimverur, alveg risastór skrímsi. Geimveruna ætlar hann að nota þegar hann sprengir new york og allar borgirnar og teleportar þær í borgina á sama tíma og sprengingin verður. Þá halda allir að það sé innrás geimvera og öll valdamestu ríki heims leiða saman hesta sína gegn þessari sameiginlegu ógn. Ef þú hefur séð myndina þá tekuru eftir að þetta var ekki atburðarrásin þar. Þar notar hann Dr.Manhattanorku til þess að sprengja borgirnar og gerir Dr. Manhattan að sameiginlegum óvini heimsins. Þetta fór dáldið í mig og spillti fyrir endanum. Það var líka einn hlutur sem mig langar að minnast á. Það var svo fyndið í myndinni að það var allt í einu mætt á svæðið þarna í lokin eitthvað yfirnáttúrulegt kattardýr sem leit út eins og afkvæmi marsbúa og gaupu. Það var ekkert útskýrt og ég býst við því að margir hafi bara hugsað WTF?. Það var eiginlega bara algjör óþarfi að hafa hann með ef þeir ætluðu ekki að útskýra af hverju hann var þarna. Þetta er sem sagt einhver hliðstæður veruleiki og þarna eru öll vísindi orðin leikur einn eftir að doktor manhattan kom með alla þessa orku til allra. Erfðavísindum hefur fleygt alveg gífurlega fram og þarna er í rauninni bara hægt að hanna skepnur. Þetta var eitt afsprengi slíkra tilrauna. Það var ekkert minnst á þetta í myndinni heldur birtist bara allt í einu geimtígrisgaupan eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Það var líka mikið af hlutum í bókinni sem komu ekki fyrir í myndinni. En mér fannst samt eiginlega bara vera til fyrirmyndar hvað það var margt tekið með. Það er örugglega ekkert auðvelt að taka svona sögur og þurfa að ákveða að sleppa alveg helling af dóti svo hún verði áhorfanleg. Til dæmis var sleppt alveg alla vega tveimur eða þremur svona sideplottum sem gerðu þessa sögu svona aðeins gildari. Svo er svona eitt og annað sem ég held að ég hafi gleymt að minnast á í hinni færslunni og þeir koma hérna svona aðeins til þess að slútta þessu.

#1 Bláa typpið. Mér fannst alveg til fyrirmyndar að hafa láta typpið á dr. Manhattan sjást í myndinni líkt og það gerði í teiknimyndasögunni. Það hefði verið fáránlegt ef hann hefði bara verið einhver ken-dúkka.
#2 Tónlistin. Það var frábær tónlist í þessari mynd. En það fór eiginlega dáldið í mig hvað þetta voru allt saman gífurlega þekkt lög. Fyrst var ég hissa á þessu, en svo var maður eiginlega bara að bíða eftir því hvað þeir kæmu með næst. Þetta var eiginlega bara fyndið en þetta truflaði mig samt smá, veit samt ekki hvort það hefði verið eitthvað betra að vera með original tónlist. Hver veit?
#3 Fullorðins. Það var frábært hvað þeir héldu sig við að gera þetta ekki að barnamynd. Kynlífið og ofbeldið gerðu hana örugglega bannaða innan 16 sem þýðir kannski að hún þéni minna en gerir hana að miklu minna kjaftæði.

Hmm.. núna hef ég bara ekkert meira um myndina að segja. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um hana, hún var alveg fín en hún var ekkert frábær. Það voru jákvæðir punktar og neikvæðir. Ef hún hefði verið léleg þá hefði maður getað rakkað hana niður í drasl og síðan ekki söguna meir. Þá Ef hún hefði verið frábær þá gæti maður horft á hana aftur og aftur og aftur og notið þess en hún var bara sæmileg og það skilur eiginlega eftir sig tómleikatilfinningu. Þessi mynd var gerð en ég mun örugglega gleyma henni og efast stórlega um að ég horfði nokkurn tímann á hana aftur.