Tuesday, August 26, 2008

Reykjavík Shorts and Docs: Íslenskar heimildarmyndir


Síðasta föstudagskvöld fór ég á Íslenska heimildarmyndapakkann á Reykjavík Shorts and Docs. Þetta var fín bíóferð þrátt fyrir að myndirnar hafi verið misjafnar.

Magapína

Þessi mynd ætti frekar heima í dýralæknaskóla en á kvikmyndahátíð, í raun er bara verið að sýna skurðaðgerð á belju sem borðaði of marga plastpoka og stíflaði á sér magann. Ekki beint minn tebolli. Þetta virðist vera tilraun til að vekja athygli fólks á hve skaðleg áhrif það getur haft á náttúruna að henda rusli bara eitthvað. Svo fannst mér ýmislegt athugavert við skurðaðgerðina sjálfa. Ef ég væri belja þá myndi ég ekki vilja láta skera mig upp í miðju fjósi fullu af kúaskít og fleira sem ég hef engan áhuga á að fá í opin sár. En beljan lifði þetta af og allir voru sáttir í lokin. En mér fannst þessi mynd eiginlega vera sísta mynd kvöldsins.

Ketill

Myndin fjallar um Ketil Larsen sem er sannkallaður fjöllistamaður. Leikari, skemmtikraftur, myndlistarmaður, söngvari, sögumaður og örugglega margt fleira. Ketill er skemmtilegur karakter sem yljar manni um hjartarætur. Í raun er bara verið að fylgjast með honum í sínu daglega lífi. Eitt atriði sem stendur upp úr hjá mér er þegar hann syngur Vem kan segla förutan vind í barnaafmæli eða fjölskylduskemmtun eða eitthvað svoleiðis og fer svo að sýna töfrabrögð. Mér fannst þessi mynd skemmtileg, ég naut þess að fylgjast með Katli. Hann er sérstakur á svo einlægan hátt að maður kemst ekki hjá því að fíla hann dálítið. Það var samt stundum eins og það vantaði að útskýra hlutina. Ég veit ekki hvað það var eins og það vantaði smá kjöt á beinið. Til dæmis að segja betur frá fortíð hans. Ég googlaði hann og komst að því að hann lék í Jóni Oddi og Jóni Bjarna. En þetta var nú samt ágætismynd. Hún hlýtur annað sætið af myndum kvöldsins.

Sagan um Svein Kristján Bjarnarson - öðru nafni Holger Cahill

Þessi mynd er dæmigerð heimildarmynd. Viðtal við sérfræðing um Svein Kristján Bjarnarson, eða Holger Cahill, Vestur-Íslending sem af eigin rammleik varð virtur listfræðingur í New York eftir að hafa í æsku verið bláfátækur á munaðarleysingjahæli. Þessi mynd var fræðandi. Ég hafði aldrei heyrt af þessum manni áður. En myndin var mjög löng og mjög langdregin. Á köflum lá við að ég nennti bara ekki að horfa á þessa mynd lengur. Ef ég hefði verið að horfa á hana í sjónvarpinu þá hefði ég örugglega skipt um stöð. En samt, hún var skárri en beljumyndin svo hún endar í þriðja sæti.

Kjötborg

Þessi mynd fannst mér góð. Alveg klárlega besta mynd kvöldsins. Tveir bræður reka verslunina Kjötborg. Verslunin þar sem allt fæst. Þeir eru vinalegir kaupmenn á horninu sem er víst deyjandi stétt nú til dags. Í kringum verslunina er hálfgert samfélag, nánast einungis fastakúnnar sem versla þarna og bræðurnir þekkja marga persónulega. Það sem hrífur mig mest við þá er þjónustulundin, þeir gera gjörsamlega allt fyrir viðskiptavinina. En allavega þá mér leið vel þegar ég gekk út úr Austurbæjarbíó að sýningu lokinni svo ég var mjög ánægður.

Saturday, August 23, 2008

Jæja

Þá hefur þetta kvikmyndablogg verið sett á laggirnar.