Tuesday, March 31, 2009

Vicky Cristina Barcelona

VVicky Cristina Barcelona er nýjasta Woody Allen myndin. Ég get ekki sagt að ég sé neinn die hard Woody Allen aðdáandi, en ég hef séð nokkrar af myndunum hans og hef oftast haft gaman af þeim. Myndin skartar þeim gullfallegu Scarlett Johansson og Penelope Cruz auk þess sem Javier Bardem leikur eitt aðalhlutverkið. Hann þykir mér vera alveg frábær. Ég kynntist honum fyrst í spænskutímum í fyrra eða árið þar áður þegar við fengum að sjá Carne tremula eftir Almodovar og svo minnir mig að ég hafi séð hann í Mar adentro þar sem hann var frábær. Hann var líka mjög góður í coen myndinni sem fékk óskarinn sem ég man ekki alveg hvað heitir. En hvað sem því líður þá var hann ekkert síðri í þessari mynd. Það er svo skemmtilegt að horfa á hann, hann er eitthvað svo áreynslulaus, meira að segja þegar hann talar ensku.

Myndin fjallar sem sagt um vinkonurnar Vicky (einhver beygla) og Cristina (Johansson) sem ákveða að dveljast sumarlangt í Barcelona. Þrátt fyrir að þær séu bestu vinkonur þá eru þær jafn ólíkar og þögn og hávaði. Vicky er sú jarðbundna. Hún er trúlofuð manni sem vinnur við eitthvað sem er leiðinlegt að vinna við og hann er mjög áreiðanlegur. Cristina er þvert á móti ævintýragjörn, tilfinningarík og listræn en er ekki alveg að finna sig í lífinu. Þær kynnast Javier Bardem sem hét einhverju dæmigerðu spænsku nafni í myndinni svo við köllum hann bara Julio. Nei, köllum hann frekar Javier. Hann er listmálari. Þetta byrjar á því að Javier og Cristina fella hugi saman en Cristina fær matareitrun eða eitthvað svipað skemmtilegt og er rúmliggjandi. Þá fara Javier og Vicky eitthvað að ferðast saman. Já, þau fóru í helgarferð til Oviedo og þar fékk cristina matareitrun. En eitt leiðir að öðru og Javier og Vicky enda á því að sofa saman, sem er eiginlega þvert á það sem manngerð Vicky myndi gera. Greinilegt að þarna eru einhverjar duldar tilfinningar á ferðinni sem hún hleypir ekki upp á yfirborðið fyrr en nú. Síðan tala þau ekkert um þetta og Cristina og Javier verða elskendur og flytja saman inn. Já Javier átti sem sagt fyrrverandi eiginkonu (Penelope) sem stakk hann með hníf. Alla vega þá reynir hún að drepa sig, köllum hana bara penelópu. Já, hún reynir að drepa sig og þarf þá að flytja inn til Javiers og cristinu. Hjónaband javiers og penelópu hafði verið stormasamt, mjög heit ást en líka heiftarleg rifrildi. Það kemur í ljós að eina sem vantaði í samband javiers og penelópu var cristina. Þetta verður sem sagt skemmtilegur ástarþríhyrningur. Penelópa er líka listamaður og hún gaf Javier innblástur alltaf. Javier og Penelópa hjálpa Cristinu við listsköpun og allt gengur sinn vanagang. Á sama tíma fær Vicky bakþanka með hjónabandið. Ég gleymdi víst að minnast á það að maðurinn hennar hafði komið til Barcelona og þau giftu sig þar. Hún getur ekki gleymt nóttinni sem hún eyddi með Javier í Oviedo. Hún er allavega búin að vera með bakþanka hvort hún fíli í alvörunni að vera seif í lífinu. Allt skipulagt. Cristina fær líka bakþanka með ástarsamband sitt við penelópu og Javier og ákveður að fara til frakklands til að losna frá öllu. Javier hringir í Vicky af því að hann hafði frétt að hún væri með bakþankana í fullum gangi og býður henni að eyða einum degi með sér. Þau gera það en penelópa kemur inn á þau með byssu og reynir að drepa þau en tekst það ekki sem betur fer því annars hefði þetta verið mjög sorglegur endir, Vicky fær reyndar skot í höndina. En það gerir ekkert til myndin endar með því að hún og Cristina snúa aftur til Bandaríkjana. Vicky gift en cristina komin aftur á byrjunarreit.

Þetta var alveg fín mynd. Hún var svona lúmskt fyndin eins og flestar woody allen myndirnar sem ég hef séð. Það sem mér fannst sérstaklega broslegt var hvað ameríkanar eru leiðinlegir, sérstaklega þegar þeir eru utan bandaríkjanna. Allir aukapersónukanarnir voru algjörir plebbar og töluðu alltaf um svo ómerkilega hluti. Það var alveg sérstaklega gert í því að láta þá tala um húsið sem þeir eiga einhvers staðar í einhverju úthverfi sem er með tennisvelli og öllu tilheyrandi og eitthvað svona leiðinlegt. Internettengingar og flatskjái og eitthvað. Mér var reyndar hugsaði til þess þegar ég er núna að skrifa þetta að ég er líka svona, held ég. Kannski flestir Íslendingar líka. Ég held að við séum engu skárri en kanarnir í myndinni. Vicky og Cristina voru líka svona tilgerðarleg. Að reyna að vera eitthvað sem þær voru ekki fannst mér. Þær voru eitthvað svo gervilegar. En þá rennur það upp fyrir manni að við erum öll bara gervigervi. En það er bara skemmtilegt. Þetta er bara eins og að vera í grímubúning. Javier og Penelópa voru eiginlega einu sem voru svona 100%. Á meðan Vicky, Cristina og hinir kanarnir voru að fara á milli listasafna og dæma listina og kannski að smakka vín og dæma vínin og þykjast vita geðveikt mikið um þetta allt, en voru síðan kannski bara að herma hlutina eftir verðmiðanum. Hvað er ég að segja, ég er hérna að dissa þá fyrir að vera að dæma eithvað sem þeir hafa ekki hundsvit á og ekki nóg með það að ég veit ekkert um svona sjálfur þá er ég að dæma þessa bíómynd og ímynda mér að ég sé einhvað séní þrátt fyrir að þetta er eflaust bölvað frat sem ég skrifa. En allavega, á meðan þau voru að þessu þá voru Javier og Penelópa að skapa. Reyndar viðurkenndi Javier að hann væri pinku að herma eftir Penelópu en hann var allavega bara hreinsskilinn með það, það er allt í lagi að herma eftir. Það var svo gaman að því hvað þau voru ólík kanarnir og spánverjarnir. Þetta var einhvernveginn sett fram eins og Spánn væri einhver perla og allt væri geðveikt gamaldags og einstakt. Algerlega búið að gelyma því að Spánn er fullur af verslunarmiðstöðvum og merkjavöru og Spánverjar eru upp til hópa ekkert ólíkir könunum. En í myndinni þá voru spánverjarnir og kanarnir eins og svart og hvítt. Þetta var eiginlega eins og að ef það væri gerð bíómynd um kana sem koma til islands og svo eru Íslendingarnir bara eitthvað í lopapeysum að borða þorramat og kveðast á alla myndina. En eru ekki að borða á subway eða mcdonalds, keyra um á amerísku glæsikerrunum í smáralind eða eitthvað. Spánverjarinr í myndinni voru blóðheitir og original einhvern veginn svona steríótýpan af spánverja, ekki eins og þeir eru í raunveruleikanum heldur eins og þeir eru í ímyndinni, örugglega sérstaklega ímynd þeirra í bandaríkjunum.

En allavega ég er bara byrjaður að tala/skrifa í hringi. Þetta var skemmtileg mynd og skondin. Skemmtilegir ástarþríhyrningar og hún var einhvern veginn svo kaótísk en samt hversdagsleg. Allt öðruvísi en Match Point og Scoop sem voru alveg fínar líka samt. Það eru sem sagt síðustu myndirnar sem hann gerði hann Allen. Hann er svo skemmtilegur oft.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 7 stig.