Watchmen
Ég ætla að byrja á því að spyrja þig Siggi þar sem þessi færsla er frekar löng hvort það myndi ekki borga sig fyrir mig að klippa hana í tvennt? Myndiru gefa því séns?
Ég fór á þessa mynd um daginn og ætlaði mér alltaf að skrifa eitthvað svaka blogg um hana en náði aldrei að peppa mig upp í að gera það. Algjörlega án þeirrar vitneskju að það væri verið að vinna að því að gera stórmynd úr þessari myndasögu lagði ég leið mína í Nexus síðasta sumar og festi kaup á henni. Ég hafði verið að glugga á netinu stuttu áður og lesið að þetta væri bara sú allra besta. Ætli þetta hafi ekki verið síðan stuttu eftir að ég sá Dark Knight því ég fylltist af einhverjum myndasöguáhuga eftir þá mynd. Síðan í vetur þá var ég eitthvað að flakka á netinu eins og ég geri dáldið mikið af og rak þá augun í þessa mynd. Ég rak upp stór augu þegar ég sá að það væri sami leikstjóri og hafði leikstýrt 300 sem ætlaði að kvikmynda þetta stórvirki. Ég vissi ekki alveg hvað manni ætti að finnast um það því mér fannst 300 vera bara alls ekki góð. Ég hafði nú ekki lesið þá myndasögu þegar ég sá myndina en það var alveg þvílíkt slómórúnk sem eyðilagði þá mynd algjörlega. En þegar ég hugsaði til baka þá mundi ég eftir því hvað hún svona lúkkaði vel. En þegar maður spáir svona í það þá er það ekkert erfitt að láta mynd sem er gerð eftir myndasögu líta vel út svo lengi sem maður er ekkert mikið að hverfa frá römmum myndasögunnar. Ég tók sérstaklega eftir því í Watchmen hvað sum skotin voru bara alveg nákvæmlega eins og rammar úr myndasögunni.
En varðandi bíóferðina. Þessi bíóferð kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það var þriðjudagur og ég hafði ekki ætla að fara á myndina fyrr en á fimmtudagskvöldið. En ég fékk símtal frá félaga mínum klukkan svona um níu leytið og þá var myndin sýnd korteri síðar í álfabakka. Þar sem ég bý á nesinu þótti mér þetta nokkuð tæpt en ákvað þó að kýla bara á það. Við keyrðum af stað og með smávægilegum umferðarlagabrotum komumst við á leiðarenda í tíma en viti menn. Bíóið var fullt út úr dyrum. Það er víst þannig að á þriðjudögum kostar bara 500 kall í bíó. Þannig að leiðin lá í kringluna og ég endaði á að fara á hana þar klukkan 10.
Ég er nýbúinn núna í smá pásu af því að skrifa af því að ég vissi eiginlega ekki alveg hvernig ég ætlaði að fjalla um myndina. Ég vil eiginlega ekki fjalla um hana eins og hverja aðra mynd af því að hún er mér frekar mikilvæg. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég ætla að fjalla fyrst um persónurnar og sjá hvað kemur svo á eftir. Kannski að maður ljúki þessari færslu á því að skrifa um persónurnar og taki sig síðan til að og skrifi aðra færslu um myndina til að græða fleiri stig. Ég ætla að sjá til hvernig til tekst.
Það eru eiginlega nokkrar aðalpersónur í myndinni.
The Comedian: Þessi kemur ekki mikið fram í myndinni því hann er myrtur í upphafsatriðinu. kemur þó frekar mikið fram í svona flashböckum. Það má samt segja að það sé morðið hans sem skapi söguna. Ég hafði nú aðeins skoðað þessa mynd á imdb og wikipedia og svona áður en ég fór á hana og ég var svona á báðum áttum hvort Denny úr Grey’s Anatomy gæti leikið þennan karakter. Þetta er svona ofbeldisfulli gaurinn sem hefur misst alla trú á mannkyninu og tekur þess vegna bara þátt í þeim brandara sem það í raun og veru er. Hann er svona algjör töffari svona Víetnamtýpan. Það er eitt atriði úr myndasögunni sem mig minnir að hafi verið í myndinni líka sem er mér alveg sérstaklega minnisstætt. Þá er hann sem sagt í víetnamstríðinu og því er eiginlega nýlokið eftir að Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar, hefur unnið það fyrir BNA. Þá mætir á svæðið ólétt víetnömsk kona og fer eitthvað að væla í the comedian og segir honum að þetta sé barnið hans og hann verði að gera eitthvað. Þetta rifrildi endar með því að hún tekur flösku eða eitthvað svona glerdót og sker hann í andlitið. Hann tekur þá bara upp byssuna og skýtur hana. Þetta lýsir eiginlega bara karakternum. Alla vega þá fannst mér hann vera alveg allt í lagi. Það er alveg greinilegt að honum Denny sé fleira til lista lagt en að vera dauðvona og síðan núna í nýju seríunni draugur. Sem er eiginlega alveg fáránlegt og er eiginlega ástæðan fyrir því að ég er hættur að nenna að fylgjast með grey’s. Ég trúi því varla lengur að þeir hafi eitt sinn verið alveg frekar góðir þættir. Ætli það hafi ekki bara verið tíðarandinn ég veit ekki. Alla vega að efninu aftur. Já Comedian var fínn.
Rorschach: Hann var fullkominn. Þetta var sennilega sú persóna sem ég hafði mestar áhyggjur af því að myndi misheppnast. Kannski fyrir utan Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar. Bara öll geðveikin sem lak af honum í sögunni kemur fram í myndinni. Myndin einblínir líka aðeins á hann finnst mér. Hann er svona chaotic good týpan. Svona Vigilante. Lætur ramma lagana ekki aftra sér í því að ná fram réttlætinu og beitir alveg ógeðslega svölu, en hrottalegu, ofbeldi til að fá því fullnægt. Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju var það að gríman hans var dáldið óraunveruleg. Sennilega erfitt að gera hana raunverulega í bíómynd. Ég var líka kannski bara búinn að ákveða fyrirfram að gríman hans yrði óraunveruleg i myndinni. Þegar ég hugsa til baka þá var það eflaust þannig. Hann leit líka bara alveg eins út í myndinni og hann gerði í myndasögunni. Það var líka dáldið skemmtilegt að í flashbackinu þegar móðir hans segir honum að hún vildi óska þess að hafa farið í fóstureyðingu og hann bara svona 6-7 ára snáði þá vorum við félagarnir þeir einu í öllum salnum sem hlógum það var frekar vandræðalegt en samt ekki. Ekkert skrítið að maðurinn skuli hafa verið svona geðveikur en ég ætla að ítreka það enn og aftur að hann var best heppnaða persónan í myndinni.
Silk Spectre: Ég var að lesa dóm um myndina í mogganum um daginn þar sem hún var þýdd silkivofan. Þá fattaði ég að ég hafði aldrei pælt neitt í því hvað spectre þýðir. Siggi ef þú ert að lesa þetta þá geturu kannski staðfest að þetta þýði í raun og veru vofa? Alla vega. Þá var þetta sennilega veikasta persónan í myndinni og kannski var þetta líka veikasta persónan í bókinni líka. En hún var alveg áberandi veikari í myndinni en bókinni. Hún var bara eitthvað svo flöt og leiðinleg. Ég held eiginlega að málið sé að karlar geti ekki skapað góðar kvenpersónur. Það var karl sem skrifaði myndasöguna og karl sem teiknaði myndasöguna og karl sem leikstýrði myndinni og karlar sem skrifuðu handritið og allt karlar sem stóðu að þessari mynd og örugglega mikill meirihluti karlar sem horfa á myndina. Hún er ekkert almennileg ofurhetja og er eiginlega bara þarna út af því að hún er gella. Eina sem hún gerir þarna er að ríða Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar, og Nite Owl. Eiginlega eina góða hana í myndinni var kynlífsatriði hennar og Næturuglunnar og það var bara kjöt. En það var líka sennilega eitt besta kynlifsatriði sem ég hef séð í kvikmynd. Samt á eftir atriðinu sem Björn Ívar sýndi okkur úr David Lynch myndinni, það var frábært. Það var líka eitt úr myndasögunni sem vantaði algjörlega í myndina það var að silk spectre reykti alla vega tóbak í bókinni. Hún var eiginlega alltaf með eitthvað sem líktist krakkípu. Þótt ég haldi að þetta hafi átt að vera einhverjar úrhliðstæðumnútímasígarettur. Það var sérstaklega eitt atriði í myndinni sem var alveg fáránlegt. Þá er sem sagt silk spectre í flaug næturuglunnar eitthvað að fikta og ýtir óvart á takka sem er með eldi á. Samt ekki þannig óvart að hún rekur sig í hann heldur þannig óvart að hún ýtir bara beint á hann. Þá kemur alveg þvílíkt mikill eldur framan úr flauginni og kveikir í alveg helling af drasli. Alla vega í bókinni þá ýtti hún á takkann afþví að hún hélt að þetta væri kveikjari af því að hún var að kveikja sér í sígarettu. Þannig minnir mig allavega að þetta hafi gerst í bókinni, ég hef ekkert lesið hana síðan í sumar. Þetta er alla vega eina rökrétta ástæðan sem ég dettur í hug fyrir því að einhver myndi ýta með takka með loga á fyrir utan þá ástæðu að manneskjan sé algjör hálfviti.
Nite Owl: Þetta er sá karakter úr sögunni sem ég tengi sjálfan mig mest við. Hann er svona batmaninn í sögunni þótt hann sé ekkki alveg jafn mikinn töffari. Hann er algjört nörd með áhuga á uglum. Hann hafði lagt ofurhetjuskóna með öllu tilheyrandi á hilluna eftir að ofurhetur voru bannaðar í bandarikjunum. Ég var að fatta núna að ég hef ekkert sagt frá söguþræði myndarinnar. Ég gleymdi því alveg. Kannski að ég komi inn á hann betur ef ég skrifa aðra færslu. En þetta verður að duga í bili. Leikarinn stóð sig alveg ágætlega í þessu hlutverki. Erfitt að eiga stjörnuleik þar sem hann er eiginlega ekkert merkilegur. En þetta er svona karakterinn sem ég elska. Hann er hæglátur og passar eiginlega ekkert inn í samfélagið eftir að hafa hætt að vera ofurhetja. Hann er viðkvæmur og ég veit ekki mér finnst mjög auðvelt að setja mig í spor hans einhvern veginn. Það gerir það heldur ekkert verra að hann fær gelluna í lokin. Það er gerir þetta líka enn skemmtilegra að hann nær henni af hrokagikkinum dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar. En í rauninni ekkert út á Næturugluna að setja. Ég var alveg þokkalega ánægður.
Ozymandias: Ef þú hefur ekki séð myndina og veist ekki plottið í henni nú þegar þá mæli ég ekki með því að lesa það sem ég ætla að skrifa um hann ozymandias. Þó er ég sennilega búinn að spoila myndinni nú þegar með því að vara við því sem ég ætla ða segja svo það er sennilega ekkert verra fyrir þig að lesa áfram úr þessu. Ozymandias er gáfaðasti maður í heimi. Ekki nóg með það að ég hef ekkert sagt frá söguþræðinum þá hef ég ekkert sagt frá aðstæðunum heldur. Setting er það ekki aðstæður. Ég mundi bara enska orðið og datt ekki betri þýðing í hug. Alla vega þá er kalda stríðið í algleymingi og allir geta dáið ef rússar og bna ákveða að fara í stríð. BNA nær að halda rússunum á mottunni með Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar, en það er ekki fullkomin lausn á vandamálinu. En Ozymandias sem gáfaðasti maður í heimi hefur fundið lausnina. Hann er sem sagt “vondi” kallinn í myndinni. Ég ætla bara að segja frá því sem gerðist í myndinni ég ætla ekki að koma inn á það sem mig minnir að gerist í myndasögunni því ég ætla að glugga í henni á morgun bara til að fá staðfestingu á því að minnið sé ekki að leika mig grátt. Því mig minnir endilega að endirinn og aðalplottið í myndinni hafi verið allt öðruvísi en í myndasögunni. Sennilega til að forðarst að hafa hana 3 tíma í viðbót. En allavega, Ozymandias veit að lausnin á vandamálinu er að gefa bandaríkjamönnum og rússum og bara heiminum öllum sameiginlegan óvin. Þess vegna ákveður hann að skipuleggja hryðuverk í öllum helstu helstu borgum heimsins og kenna síðan Dr. Manhattan um. Hann er kannski ekkert góður hann ozymandias en hann er samt ekkert vondur þannig. Hann er eiginlega bara hrokafullur og lítur kannski niður á allt hitt fólkið af því að hann er svo gáfaður. Hann fjármagnaði hryðjuverkin meðal annars með því að selja action figures með sér og ofurhetjuvinum sínum og gera sig að frægasta manni í heimi eigilega og selja sigi bara geðveikt mikið. Það fer eiginlega bara eftir því hvernig maður lítur á þetta hvað hvort hann sé góður eða vondur. Hann er í rauninni að frelsa heiminn úr þrældómi kjarnavopna en samt er þetta eitthvað svo rangt allt. En alla vega þá er ekkert út á það að setja hvernig leikaranum tekst til. Hann er mjög góður bara. Það er reyndar eitt sem ég vil koma inn á varðandi bara alla karakterana er að þeir berjast allir eins og þeir séu með einhverja svaka ofurkrafta sem þeir eru ekki með. Þeir eru líka ekkert ofurhetjur. Alla vega kölluðust þeir alltaf costumed heroes í bókinni. Dr. Manhattan er eigilnega eina ofurhetjan í allri sögunni en ég kem betur inn á hann NÚNA!
Dr. Manhattan: Ég ætla að byrja með því að afsaka mig á þessum brandara, sem ég er búinn að vera með í gangi. Ég veit ekki hvort lesandinn hefur tekið eftir þvi en ég hef alltaf sagt að ég ætli að fjalla um Dr. Manhattan síðar en þetta var einhver einkahúmor sem er síðan ekkert fyndinn. Alla vega. Dr. Manhattan er blár. Hann er maður sem lenti fyrir slysni inn í kjarnakljúf en fór í þúsund mola og er núna bara einhver orka sem flakkar um. Hann getur líka beislað alla orku og gert bara það sem hann vill. Hann er svona eins og blanda af magneto og hiro nakamura nema hann getur stjórnað öllu en ekki bara málmum. Hann lifir líka í fjórum víddum og getur ferðast um í tíma. Þótt hann sé ekki beint að ferðast um í tíma heldur er hann bara alls staðar í tíma. Allt að gerast á sama tíma. Sem er fukked. Hann er ekki mennskur lengur og það eina sem tengir hann við mannkynið er Silk Spectre og þegar hann missir hana þá fer hann og þá getur ozymandias byrjað the master plan. Eini staðurinn sem ég man eftir að hafa fengið gæsahúð í bókinni er þegar hann er staddur á mars og er að segja frá því hversu óendanlega ómerkilegt mannkynið er og lífið almennt í heiminum. Hvað myndi breytast á jörðinni ef mannkynið myndi hverfa? Eftir nokkur þúsund ár væru öll ummerki um að við hefðum nokkurn tímann verið til horfin ef ekki fyrr. En hvað ef lífið myndi hætta á þessari plánetu? Myndi jörðin ekki áfram snúast í kringum sólina? Sem snýst í vetrarbrautinni sem snýst í einhverjum vetrarbrautaþyrpingum og svo framvegis og svo framvegis? Hvaða máli skiptir það að nokkur efni hafi myndað lífræn efni og síðan lífið? Hvað gerir þessi lífrænu efni eitthvað merkilegri en grjótið í jarðskorpunni. Ég hef sjaldan fundið fyrir jafn mikilli minnimáttarkennd og þegar ég las þetta og ég lenti í alveg þvílíkri tilvistarkreppu í frekar langan tíma. Ég er þó mjög gjarn á svona tilvistarkreppur. Vá ég nenni ekki að skrifa meira, ég er orðinn svo þreyttur í höndunum. Þetta er líka alveg nóg og ég efast um að nokkur nenni að lesa þetta. Takk fyrir mig. Ég ætla samt örugglega að reyna að græða meiri stig á þessari mynd.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
LÖÖÖNG færsla. Og ekkert sérstaklega spennandi aflestrar. 8 stig.
Post a Comment