Tuesday, March 31, 2009

watchmenblogg #2

Jæja þá ætla ég að fjalla aðeins meira um watchmen. Það var ýmislegt sem að var kannski frekar illskiljanlegt í hinni færslunni vegna þess að þar sem ég vissi hvernig framvinda mála yrði þegar ég sá myndina þá gerði ég einhvern veginn ráð fyrir að lesandinn hefði gert það líka og vissi þá alveg hvað væri í gangi. En núna ætla ég aðallega að tala um endann á myndinni og bókinni eða ég hafði hugsað mér að gera það. Ætla bara að sjá til hvert þetta leiðir mig allt. Byrjum bara á endanum.

Mér fannst óþægilegt að sjá endann í bíósalnum og það angraði mig mest var að ég mundi ekki almennilega hvernig hann hafði verið nákvæmlega í bókinni. Ég reyndi að leiða þetta hjá mér en einhvern veginn minnti mig að hann hefði verið öðruvísi. Ég verð samt að viðurkenna að ég hef ekki staðið við gefin loforð úr fyrri færslu og litið yfir söguna aftur því ég finn hana ekki, hún er einhvers staðar á kafi í draslinu mínu. Svo ég ætla ekki að taka neina ábyrgð á því sem ég staðhæfi hérna því ég get hæglega verið að fara með langt mál því sagan er mér ekki alveg í fersku minni.

SPOILER ALERT

Mig minnir að í bókinni hafi þetta verið eitthvað á þessa leið. Ozymandias sem ég kynnti fyrir ykkur í fyrradag ætlar að gefa bandaríkjunum og sovétríkjunum og bara heiminum öllum sameiginlegan óvin og safnar því saman öllu helsta fólkinu á sviði erfðavísinda, líftækni og fleiri vísindagreina auk þess sem hann ræður merkt listafólk og frægasta myndasöguteiknara í heimi. Allt fer þetta fram í leyni og allt fyllist af fréttum af því að þetta fólk sé að hverfa hægi vinstri. Hann ætlar að hanna lífverur sem lítur út fyrir að vera klikkaðar geimverur, alveg risastór skrímsi. Geimveruna ætlar hann að nota þegar hann sprengir new york og allar borgirnar og teleportar þær í borgina á sama tíma og sprengingin verður. Þá halda allir að það sé innrás geimvera og öll valdamestu ríki heims leiða saman hesta sína gegn þessari sameiginlegu ógn. Ef þú hefur séð myndina þá tekuru eftir að þetta var ekki atburðarrásin þar. Þar notar hann Dr.Manhattanorku til þess að sprengja borgirnar og gerir Dr. Manhattan að sameiginlegum óvini heimsins. Þetta fór dáldið í mig og spillti fyrir endanum. Það var líka einn hlutur sem mig langar að minnast á. Það var svo fyndið í myndinni að það var allt í einu mætt á svæðið þarna í lokin eitthvað yfirnáttúrulegt kattardýr sem leit út eins og afkvæmi marsbúa og gaupu. Það var ekkert útskýrt og ég býst við því að margir hafi bara hugsað WTF?. Það var eiginlega bara algjör óþarfi að hafa hann með ef þeir ætluðu ekki að útskýra af hverju hann var þarna. Þetta er sem sagt einhver hliðstæður veruleiki og þarna eru öll vísindi orðin leikur einn eftir að doktor manhattan kom með alla þessa orku til allra. Erfðavísindum hefur fleygt alveg gífurlega fram og þarna er í rauninni bara hægt að hanna skepnur. Þetta var eitt afsprengi slíkra tilrauna. Það var ekkert minnst á þetta í myndinni heldur birtist bara allt í einu geimtígrisgaupan eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Það var líka mikið af hlutum í bókinni sem komu ekki fyrir í myndinni. En mér fannst samt eiginlega bara vera til fyrirmyndar hvað það var margt tekið með. Það er örugglega ekkert auðvelt að taka svona sögur og þurfa að ákveða að sleppa alveg helling af dóti svo hún verði áhorfanleg. Til dæmis var sleppt alveg alla vega tveimur eða þremur svona sideplottum sem gerðu þessa sögu svona aðeins gildari. Svo er svona eitt og annað sem ég held að ég hafi gleymt að minnast á í hinni færslunni og þeir koma hérna svona aðeins til þess að slútta þessu.

#1 Bláa typpið. Mér fannst alveg til fyrirmyndar að hafa láta typpið á dr. Manhattan sjást í myndinni líkt og það gerði í teiknimyndasögunni. Það hefði verið fáránlegt ef hann hefði bara verið einhver ken-dúkka.
#2 Tónlistin. Það var frábær tónlist í þessari mynd. En það fór eiginlega dáldið í mig hvað þetta voru allt saman gífurlega þekkt lög. Fyrst var ég hissa á þessu, en svo var maður eiginlega bara að bíða eftir því hvað þeir kæmu með næst. Þetta var eiginlega bara fyndið en þetta truflaði mig samt smá, veit samt ekki hvort það hefði verið eitthvað betra að vera með original tónlist. Hver veit?
#3 Fullorðins. Það var frábært hvað þeir héldu sig við að gera þetta ekki að barnamynd. Kynlífið og ofbeldið gerðu hana örugglega bannaða innan 16 sem þýðir kannski að hún þéni minna en gerir hana að miklu minna kjaftæði.

Hmm.. núna hef ég bara ekkert meira um myndina að segja. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um hana, hún var alveg fín en hún var ekkert frábær. Það voru jákvæðir punktar og neikvæðir. Ef hún hefði verið léleg þá hefði maður getað rakkað hana niður í drasl og síðan ekki söguna meir. Þá Ef hún hefði verið frábær þá gæti maður horft á hana aftur og aftur og aftur og notið þess en hún var bara sæmileg og það skilur eiginlega eftir sig tómleikatilfinningu. Þessi mynd var gerð en ég mun örugglega gleyma henni og efast stórlega um að ég horfði nokkurn tímann á hana aftur.

stuttmynd?

Við tókum upp stuttmynd um helgina, ekki núna um helgina heldur þarsíðustu helgi. Með mér í hópnum voru Jóhanna, Jóhann og Gunnar. Við hittumst á fimmtudeginum og ætluðum að smíða einhverja hugmynd en engum datt neitt í hug. Eina sem við töluðum um eiginlega var að okkar datt ekki neitt í hug. En Ásta Fanney var að teikna á Jóhann og hún byrjaði að koma með hugmyndir á fullu útaf því að við vorum svo geld. Hún kom með helling af hugmyndum og þar bar hæst hugmynd um að gera páskamynd. Ég hafði eitthvað viðrað hugmyndir að gera mynd um geðveikan vísindamann og aðstoðarmann hans og svo komst ég í alveg þvílíkan eldmóð og fór að splæsa þessar hugmyndir saman. Ég kom heim úr skólanum í þvílíku stuði og byrjaði að skrifa hugmyndina niður á blað. Svo skrifaði ég þetta upp í tölvuna og fannst þetta allt alveg frábært. Ég prentaði þetta út og svo þegar við hittumst á laugardeginum til að ákveða þetta allt saman þá féll þetta í grýttan jarðveg hjá hópfélögum mínum. Eftir á að hyggja var þetta kannski ekkert frábær hugmynd, kannski dáldið dæmigerð en það var eiginlega það sem heillaði mig mest við hana. Ég fíla dáldið svona hluti sem eru svona fáránlegar klisjur. En allavega, svo að öll þessi vinna verði ekki til einskis ákvað ég að birta allt heila klabbið hérna og reyna kannski að fá nokkur stig í sarpinn í leiðinni.

Meðaljón sér auglýsingu í blaði þar sem óskað er eftir aðstoðarmanni vísindamanns. Hann fer að hitta vísindamanninn og hann fær starfið. Það er allt mjög dularfullt. Það kemur í ljós að þetta er brjálaður vísindamaður. Hann ætlar að eyðileggja páskana með því að skemma páskaeggjavélnia í nóa síríus. Hann setur aðstoðarmanninn í kjarnakljúf til að drepa hann og segir honum sögu sína, hann mátti aldrei fá páskaegg þegar hann var lítill. En aðstoðarmaðurinn breytist í ofurhetju og síðan fer hann í nóa siríus og ætlar að stoppa hann. Þeir takast á hellingur af sfx og þeir eru að berjast með geðveikt svölum hætti. Brjálaða vísindamanninum tekst að sprengja nóa síríus en hetjan sleppur með mótið eina og bjargar páskunum!
Atriði 1. Dramatík. það var aðeins eitt páskaeggjamót til sem skapaði öll páskaegg á íslandi og skapaði páskana! Það er enn notað til að skapa öll páskaegg í nóa siríus.
Atriði 2. Hversdagslegt, morgun heima, meðaljón að borðar serios. Hann fer að lesa blaðið. Hann rekst á smáauglýsingu, Aðstoðarmaður vísindamanns óskast. Hann er mögulega með einhvern hvata til að fá sér starf? Var hann rekinn frá nóa siríus? Þarf hann að sanna sig?
Atriði 3. Hann fer á fund hjá brjálaða vísindamanninum, stut viðtal?, Hann fær starfið og fær slopp og eitthvað shit, þeir eru þarna eitthvað að vinna. Tæknidót. Sýnir honum kjarnakljúf. Svo fer hann að vinna. Hann er að sópa og finnur einhvern leynistað. Þar era ð finna helling af blueprints og lýsing á því hvernig hann ætlar að eyða Nóa siríus. og hann kemst fyrir slysni að því að hann ætlar að eyða nóa siríus af því að hann hatar páskana!.
Atriði 4. Hann era ð segja frá því hvað hann hatar páskana og kemur flashback. Gömul skrifstofa með helling af gömlu dóti. Eldri maður sem era ð skamma hann. Segier honum að hann má aldrei fá páskaegg af því að þau eru óholl. Hann svarar “allir hinir krakkarnir mega fá páskaegg nema ég?” Gamli tekur það ekki í mál og fer bara að skamma hann. Læsir hann inn í kompu eða eitthvða. Óbeit á páskunum!
Atriði 5. Kemur í ljós að þetta er brjálaður vísindamaður. visindi nær að yfirbuga gaurinn og setur hann inn í kjarnakljúf! Hann er að fara að deyja! En nei hann deyr ekki hann breytist í ofurhetju! Flýgur upp í loftið og bamm lendir á gangstéttinni og brýtur hana special effects. Gerir eitthvað shit rústar einhverju eða eittthvað hann er allavega kominn með ofurkrafta. Hann veit að brjálaði vísindamaðurinn ætlar að eyða nóa síríus og ákveður að stoppa hann!
Atriði 6. Vísindamaðurinn er kominn í nóa siríus og ætlar að eyða mótinu eina. Hann setur sprengju í nóa siríus og svo confrontar hetjan hann. Þeir berjast heillengi með miklum tæknibrellum . Brjálaða manninum tekst að sprengja nóa síríus en hetjan kemst burt með mótið eina. Vísindamaðurinn deyr en hetjan bjargar deginum.

Vicky Cristina Barcelona

VVicky Cristina Barcelona er nýjasta Woody Allen myndin. Ég get ekki sagt að ég sé neinn die hard Woody Allen aðdáandi, en ég hef séð nokkrar af myndunum hans og hef oftast haft gaman af þeim. Myndin skartar þeim gullfallegu Scarlett Johansson og Penelope Cruz auk þess sem Javier Bardem leikur eitt aðalhlutverkið. Hann þykir mér vera alveg frábær. Ég kynntist honum fyrst í spænskutímum í fyrra eða árið þar áður þegar við fengum að sjá Carne tremula eftir Almodovar og svo minnir mig að ég hafi séð hann í Mar adentro þar sem hann var frábær. Hann var líka mjög góður í coen myndinni sem fékk óskarinn sem ég man ekki alveg hvað heitir. En hvað sem því líður þá var hann ekkert síðri í þessari mynd. Það er svo skemmtilegt að horfa á hann, hann er eitthvað svo áreynslulaus, meira að segja þegar hann talar ensku.

Myndin fjallar sem sagt um vinkonurnar Vicky (einhver beygla) og Cristina (Johansson) sem ákveða að dveljast sumarlangt í Barcelona. Þrátt fyrir að þær séu bestu vinkonur þá eru þær jafn ólíkar og þögn og hávaði. Vicky er sú jarðbundna. Hún er trúlofuð manni sem vinnur við eitthvað sem er leiðinlegt að vinna við og hann er mjög áreiðanlegur. Cristina er þvert á móti ævintýragjörn, tilfinningarík og listræn en er ekki alveg að finna sig í lífinu. Þær kynnast Javier Bardem sem hét einhverju dæmigerðu spænsku nafni í myndinni svo við köllum hann bara Julio. Nei, köllum hann frekar Javier. Hann er listmálari. Þetta byrjar á því að Javier og Cristina fella hugi saman en Cristina fær matareitrun eða eitthvað svipað skemmtilegt og er rúmliggjandi. Þá fara Javier og Vicky eitthvað að ferðast saman. Já, þau fóru í helgarferð til Oviedo og þar fékk cristina matareitrun. En eitt leiðir að öðru og Javier og Vicky enda á því að sofa saman, sem er eiginlega þvert á það sem manngerð Vicky myndi gera. Greinilegt að þarna eru einhverjar duldar tilfinningar á ferðinni sem hún hleypir ekki upp á yfirborðið fyrr en nú. Síðan tala þau ekkert um þetta og Cristina og Javier verða elskendur og flytja saman inn. Já Javier átti sem sagt fyrrverandi eiginkonu (Penelope) sem stakk hann með hníf. Alla vega þá reynir hún að drepa sig, köllum hana bara penelópu. Já, hún reynir að drepa sig og þarf þá að flytja inn til Javiers og cristinu. Hjónaband javiers og penelópu hafði verið stormasamt, mjög heit ást en líka heiftarleg rifrildi. Það kemur í ljós að eina sem vantaði í samband javiers og penelópu var cristina. Þetta verður sem sagt skemmtilegur ástarþríhyrningur. Penelópa er líka listamaður og hún gaf Javier innblástur alltaf. Javier og Penelópa hjálpa Cristinu við listsköpun og allt gengur sinn vanagang. Á sama tíma fær Vicky bakþanka með hjónabandið. Ég gleymdi víst að minnast á það að maðurinn hennar hafði komið til Barcelona og þau giftu sig þar. Hún getur ekki gleymt nóttinni sem hún eyddi með Javier í Oviedo. Hún er allavega búin að vera með bakþanka hvort hún fíli í alvörunni að vera seif í lífinu. Allt skipulagt. Cristina fær líka bakþanka með ástarsamband sitt við penelópu og Javier og ákveður að fara til frakklands til að losna frá öllu. Javier hringir í Vicky af því að hann hafði frétt að hún væri með bakþankana í fullum gangi og býður henni að eyða einum degi með sér. Þau gera það en penelópa kemur inn á þau með byssu og reynir að drepa þau en tekst það ekki sem betur fer því annars hefði þetta verið mjög sorglegur endir, Vicky fær reyndar skot í höndina. En það gerir ekkert til myndin endar með því að hún og Cristina snúa aftur til Bandaríkjana. Vicky gift en cristina komin aftur á byrjunarreit.

Þetta var alveg fín mynd. Hún var svona lúmskt fyndin eins og flestar woody allen myndirnar sem ég hef séð. Það sem mér fannst sérstaklega broslegt var hvað ameríkanar eru leiðinlegir, sérstaklega þegar þeir eru utan bandaríkjanna. Allir aukapersónukanarnir voru algjörir plebbar og töluðu alltaf um svo ómerkilega hluti. Það var alveg sérstaklega gert í því að láta þá tala um húsið sem þeir eiga einhvers staðar í einhverju úthverfi sem er með tennisvelli og öllu tilheyrandi og eitthvað svona leiðinlegt. Internettengingar og flatskjái og eitthvað. Mér var reyndar hugsaði til þess þegar ég er núna að skrifa þetta að ég er líka svona, held ég. Kannski flestir Íslendingar líka. Ég held að við séum engu skárri en kanarnir í myndinni. Vicky og Cristina voru líka svona tilgerðarleg. Að reyna að vera eitthvað sem þær voru ekki fannst mér. Þær voru eitthvað svo gervilegar. En þá rennur það upp fyrir manni að við erum öll bara gervigervi. En það er bara skemmtilegt. Þetta er bara eins og að vera í grímubúning. Javier og Penelópa voru eiginlega einu sem voru svona 100%. Á meðan Vicky, Cristina og hinir kanarnir voru að fara á milli listasafna og dæma listina og kannski að smakka vín og dæma vínin og þykjast vita geðveikt mikið um þetta allt, en voru síðan kannski bara að herma hlutina eftir verðmiðanum. Hvað er ég að segja, ég er hérna að dissa þá fyrir að vera að dæma eithvað sem þeir hafa ekki hundsvit á og ekki nóg með það að ég veit ekkert um svona sjálfur þá er ég að dæma þessa bíómynd og ímynda mér að ég sé einhvað séní þrátt fyrir að þetta er eflaust bölvað frat sem ég skrifa. En allavega, á meðan þau voru að þessu þá voru Javier og Penelópa að skapa. Reyndar viðurkenndi Javier að hann væri pinku að herma eftir Penelópu en hann var allavega bara hreinsskilinn með það, það er allt í lagi að herma eftir. Það var svo gaman að því hvað þau voru ólík kanarnir og spánverjarnir. Þetta var einhvernveginn sett fram eins og Spánn væri einhver perla og allt væri geðveikt gamaldags og einstakt. Algerlega búið að gelyma því að Spánn er fullur af verslunarmiðstöðvum og merkjavöru og Spánverjar eru upp til hópa ekkert ólíkir könunum. En í myndinni þá voru spánverjarnir og kanarnir eins og svart og hvítt. Þetta var eiginlega eins og að ef það væri gerð bíómynd um kana sem koma til islands og svo eru Íslendingarnir bara eitthvað í lopapeysum að borða þorramat og kveðast á alla myndina. En eru ekki að borða á subway eða mcdonalds, keyra um á amerísku glæsikerrunum í smáralind eða eitthvað. Spánverjarinr í myndinni voru blóðheitir og original einhvern veginn svona steríótýpan af spánverja, ekki eins og þeir eru í raunveruleikanum heldur eins og þeir eru í ímyndinni, örugglega sérstaklega ímynd þeirra í bandaríkjunum.

En allavega ég er bara byrjaður að tala/skrifa í hringi. Þetta var skemmtileg mynd og skondin. Skemmtilegir ástarþríhyrningar og hún var einhvern veginn svo kaótísk en samt hversdagsleg. Allt öðruvísi en Match Point og Scoop sem voru alveg fínar líka samt. Það eru sem sagt síðustu myndirnar sem hann gerði hann Allen. Hann er svo skemmtilegur oft.

Mad Detective

Myndin sem við horfðum á síðasta föstudag var mad detective. Mér finnst dáldið fyndið að einmitt þær myndir sem við erum búin að horfa á svona eftir jól sem hafa staðið upp úr hjá mér hafa verið asískar. Eða allavega þær sem eru mér í fersku minni. Kannski að cutting edge sé eina önnur myndin sem ég hef haft virkilega gaman að. Þessi hátíðarsalur hefur einhvern veginn þau áhrif á mig að þegar ég sest þarna og horfi á myndir þá finnst mér þær nánast ósjálfrátt vera alveg óskaplega niðurdrepandi og langar mest af öllu til þess að komast bara beint út í sólskinið. Hin asíska myndin sem ég man ekki alveg hvað hét byrjaði geðveikt vel, en leystist svo bara út í einhverja vitleysu. Ég man að þegar það var eitthvað bardagaatriði inni í einhverju hofi eða eitthvað svoleiðis þá sofnaði ég. Það hefur dáldið loðað við föstudagstímana í vetur að vera svona á milli svefns og vöku. Reyndar þegar ég hugsa til bara þá var hin asíska myndin þarna með öllu kungfuinu alveg frekar niðurdrepandi líka. En ég sofnaði ekkert yfir Mad Detective.

Hann var svo fyndinn gamli kallinn sem skar af sér eyrað í byrjun. Geðveiki rannsóknarlögreglumaðurinn. Ég átti líka dáldið erfitt stundum með að átta mig á gangi mála. Því textinn var oft svo fljótur. Mér finnst þetta líka vera það óþægilegasta við að horfa á myndir sem ég hvorki eru á ensku né íslensku að maður þarf alltaf að vera að fylgjast svo grannt með textanum til að átta sig á hlutunum en þá er erfiðara að sjá hvað er í gangi í afganginum á skjánum á meðan. Svo var þessi mynd dáldið ruglingsleg og svo var hún dáldið myrk svo hún var alveg fínn kandídat í niðurdrepandi mynd. En það sem bjargaði henni fyrir horn var eiginlega hvað hún var hress og gerðist hratt. Þetta var líka bara svo sérstakt efni sem hún fjallaði um að maður komst eiginlega ekki hjá því að fylgjast með. Ég skal samt viðurkenna að þótt hún hafi verið svona hröð og hress og stutt reyndar líka þá var ég aðeins orðinn eirðarlaus undir lokin af því að það hægðist dáldið á henni þá. Endirinn var dáldið lengi á leiðinni.

Í byrjun fannst mér rosalega ruglingslegt þegar maður fékk að sjá það sem geðveiki rannsóknarmaðurinn sá. Þegar hann sá sjö manneskjur í kallinum þarna. Það var líka dáldið skrítið að við vissum eiginlega allan tímann að þessi gaur væri vondi kallinn. Það sem var eiginlega mest spennandi var að vita hvernig þeir myndi sanna það, sem þeir gerðu í rauninn ekki eða samt ég veit ekki. Kannski var bara mest spennandi að sjá hvernig rættist úr þessu. Annað sem fór dáldið í mig að þeir voru allir svo líkir. Ég átti það til að rugla rannsóknarlögreglumönnum saman, eiginlega eini sem var einstakur var þessi klikkaði. En ég ruglaði dáldið saman vini hans, vonda kallinum og þeim horfna. Sérstaklega í byrjun. Líka í atriðinu þar sem hann hvarf í skóginum, þegar hann var að elta indverska manninn þá átti ég í erfiðleikum með að átta mig á hvað væri eiginlega í gangi.

Annars var þetta bara mjög skemmtileg mynd. Eiginlega bara best af þeim sem við höfum séð í vor. Þó ekki skemmtilegri en klippiheimildarmyndin. En þess má geta að ég sá ekki The Thing. Já, Siggi ég var að velta því fyrir mér í þeim tíma, The Thing tímanum þá vorum við í íslenskri erfðagreiningu í heimsókn. Ég var ekki alveg viss hvernig það var en, Margrét sagði að þú ætlaðir að sleppa okkur með skróp útaf því. Bara að tékka á því. Hmm.. reyndar man ég lítið eftir myndunum sem við erum búin að vera að horfa á, hafa kannski ekkert verið svo margar núna í vor, ég veit það ekki.

Sunday, March 29, 2009

Watchmen

Watchmen

Ég ætla að byrja á því að spyrja þig Siggi þar sem þessi færsla er frekar löng hvort það myndi ekki borga sig fyrir mig að klippa hana í tvennt? Myndiru gefa því séns?

Ég fór á þessa mynd um daginn og ætlaði mér alltaf að skrifa eitthvað svaka blogg um hana en náði aldrei að peppa mig upp í að gera það. Algjörlega án þeirrar vitneskju að það væri verið að vinna að því að gera stórmynd úr þessari myndasögu lagði ég leið mína í Nexus síðasta sumar og festi kaup á henni. Ég hafði verið að glugga á netinu stuttu áður og lesið að þetta væri bara sú allra besta. Ætli þetta hafi ekki verið síðan stuttu eftir að ég sá Dark Knight því ég fylltist af einhverjum myndasöguáhuga eftir þá mynd. Síðan í vetur þá var ég eitthvað að flakka á netinu eins og ég geri dáldið mikið af og rak þá augun í þessa mynd. Ég rak upp stór augu þegar ég sá að það væri sami leikstjóri og hafði leikstýrt 300 sem ætlaði að kvikmynda þetta stórvirki. Ég vissi ekki alveg hvað manni ætti að finnast um það því mér fannst 300 vera bara alls ekki góð. Ég hafði nú ekki lesið þá myndasögu þegar ég sá myndina en það var alveg þvílíkt slómórúnk sem eyðilagði þá mynd algjörlega. En þegar ég hugsaði til baka þá mundi ég eftir því hvað hún svona lúkkaði vel. En þegar maður spáir svona í það þá er það ekkert erfitt að láta mynd sem er gerð eftir myndasögu líta vel út svo lengi sem maður er ekkert mikið að hverfa frá römmum myndasögunnar. Ég tók sérstaklega eftir því í Watchmen hvað sum skotin voru bara alveg nákvæmlega eins og rammar úr myndasögunni.

En varðandi bíóferðina. Þessi bíóferð kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það var þriðjudagur og ég hafði ekki ætla að fara á myndina fyrr en á fimmtudagskvöldið. En ég fékk símtal frá félaga mínum klukkan svona um níu leytið og þá var myndin sýnd korteri síðar í álfabakka. Þar sem ég bý á nesinu þótti mér þetta nokkuð tæpt en ákvað þó að kýla bara á það. Við keyrðum af stað og með smávægilegum umferðarlagabrotum komumst við á leiðarenda í tíma en viti menn. Bíóið var fullt út úr dyrum. Það er víst þannig að á þriðjudögum kostar bara 500 kall í bíó. Þannig að leiðin lá í kringluna og ég endaði á að fara á hana þar klukkan 10.
Ég er nýbúinn núna í smá pásu af því að skrifa af því að ég vissi eiginlega ekki alveg hvernig ég ætlaði að fjalla um myndina. Ég vil eiginlega ekki fjalla um hana eins og hverja aðra mynd af því að hún er mér frekar mikilvæg. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég ætla að fjalla fyrst um persónurnar og sjá hvað kemur svo á eftir. Kannski að maður ljúki þessari færslu á því að skrifa um persónurnar og taki sig síðan til að og skrifi aðra færslu um myndina til að græða fleiri stig. Ég ætla að sjá til hvernig til tekst.

Það eru eiginlega nokkrar aðalpersónur í myndinni.

The Comedian: Þessi kemur ekki mikið fram í myndinni því hann er myrtur í upphafsatriðinu. kemur þó frekar mikið fram í svona flashböckum. Það má samt segja að það sé morðið hans sem skapi söguna. Ég hafði nú aðeins skoðað þessa mynd á imdb og wikipedia og svona áður en ég fór á hana og ég var svona á báðum áttum hvort Denny úr Grey’s Anatomy gæti leikið þennan karakter. Þetta er svona ofbeldisfulli gaurinn sem hefur misst alla trú á mannkyninu og tekur þess vegna bara þátt í þeim brandara sem það í raun og veru er. Hann er svona algjör töffari svona Víetnamtýpan. Það er eitt atriði úr myndasögunni sem mig minnir að hafi verið í myndinni líka sem er mér alveg sérstaklega minnisstætt. Þá er hann sem sagt í víetnamstríðinu og því er eiginlega nýlokið eftir að Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar, hefur unnið það fyrir BNA. Þá mætir á svæðið ólétt víetnömsk kona og fer eitthvað að væla í the comedian og segir honum að þetta sé barnið hans og hann verði að gera eitthvað. Þetta rifrildi endar með því að hún tekur flösku eða eitthvað svona glerdót og sker hann í andlitið. Hann tekur þá bara upp byssuna og skýtur hana. Þetta lýsir eiginlega bara karakternum. Alla vega þá fannst mér hann vera alveg allt í lagi. Það er alveg greinilegt að honum Denny sé fleira til lista lagt en að vera dauðvona og síðan núna í nýju seríunni draugur. Sem er eiginlega alveg fáránlegt og er eiginlega ástæðan fyrir því að ég er hættur að nenna að fylgjast með grey’s. Ég trúi því varla lengur að þeir hafi eitt sinn verið alveg frekar góðir þættir. Ætli það hafi ekki bara verið tíðarandinn ég veit ekki. Alla vega að efninu aftur. Já Comedian var fínn.

Rorschach: Hann var fullkominn. Þetta var sennilega sú persóna sem ég hafði mestar áhyggjur af því að myndi misheppnast. Kannski fyrir utan Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar. Bara öll geðveikin sem lak af honum í sögunni kemur fram í myndinni. Myndin einblínir líka aðeins á hann finnst mér. Hann er svona chaotic good týpan. Svona Vigilante. Lætur ramma lagana ekki aftra sér í því að ná fram réttlætinu og beitir alveg ógeðslega svölu, en hrottalegu, ofbeldi til að fá því fullnægt. Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju var það að gríman hans var dáldið óraunveruleg. Sennilega erfitt að gera hana raunverulega í bíómynd. Ég var líka kannski bara búinn að ákveða fyrirfram að gríman hans yrði óraunveruleg i myndinni. Þegar ég hugsa til baka þá var það eflaust þannig. Hann leit líka bara alveg eins út í myndinni og hann gerði í myndasögunni. Það var líka dáldið skemmtilegt að í flashbackinu þegar móðir hans segir honum að hún vildi óska þess að hafa farið í fóstureyðingu og hann bara svona 6-7 ára snáði þá vorum við félagarnir þeir einu í öllum salnum sem hlógum það var frekar vandræðalegt en samt ekki. Ekkert skrítið að maðurinn skuli hafa verið svona geðveikur en ég ætla að ítreka það enn og aftur að hann var best heppnaða persónan í myndinni.

Silk Spectre: Ég var að lesa dóm um myndina í mogganum um daginn þar sem hún var þýdd silkivofan. Þá fattaði ég að ég hafði aldrei pælt neitt í því hvað spectre þýðir. Siggi ef þú ert að lesa þetta þá geturu kannski staðfest að þetta þýði í raun og veru vofa? Alla vega. Þá var þetta sennilega veikasta persónan í myndinni og kannski var þetta líka veikasta persónan í bókinni líka. En hún var alveg áberandi veikari í myndinni en bókinni. Hún var bara eitthvað svo flöt og leiðinleg. Ég held eiginlega að málið sé að karlar geti ekki skapað góðar kvenpersónur. Það var karl sem skrifaði myndasöguna og karl sem teiknaði myndasöguna og karl sem leikstýrði myndinni og karlar sem skrifuðu handritið og allt karlar sem stóðu að þessari mynd og örugglega mikill meirihluti karlar sem horfa á myndina. Hún er ekkert almennileg ofurhetja og er eiginlega bara þarna út af því að hún er gella. Eina sem hún gerir þarna er að ríða Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar, og Nite Owl. Eiginlega eina góða hana í myndinni var kynlífsatriði hennar og Næturuglunnar og það var bara kjöt. En það var líka sennilega eitt besta kynlifsatriði sem ég hef séð í kvikmynd. Samt á eftir atriðinu sem Björn Ívar sýndi okkur úr David Lynch myndinni, það var frábært. Það var líka eitt úr myndasögunni sem vantaði algjörlega í myndina það var að silk spectre reykti alla vega tóbak í bókinni. Hún var eiginlega alltaf með eitthvað sem líktist krakkípu. Þótt ég haldi að þetta hafi átt að vera einhverjar úrhliðstæðumnútímasígarettur. Það var sérstaklega eitt atriði í myndinni sem var alveg fáránlegt. Þá er sem sagt silk spectre í flaug næturuglunnar eitthvað að fikta og ýtir óvart á takka sem er með eldi á. Samt ekki þannig óvart að hún rekur sig í hann heldur þannig óvart að hún ýtir bara beint á hann. Þá kemur alveg þvílíkt mikill eldur framan úr flauginni og kveikir í alveg helling af drasli. Alla vega í bókinni þá ýtti hún á takkann afþví að hún hélt að þetta væri kveikjari af því að hún var að kveikja sér í sígarettu. Þannig minnir mig allavega að þetta hafi gerst í bókinni, ég hef ekkert lesið hana síðan í sumar. Þetta er alla vega eina rökrétta ástæðan sem ég dettur í hug fyrir því að einhver myndi ýta með takka með loga á fyrir utan þá ástæðu að manneskjan sé algjör hálfviti.

Nite Owl: Þetta er sá karakter úr sögunni sem ég tengi sjálfan mig mest við. Hann er svona batmaninn í sögunni þótt hann sé ekkki alveg jafn mikinn töffari. Hann er algjört nörd með áhuga á uglum. Hann hafði lagt ofurhetjuskóna með öllu tilheyrandi á hilluna eftir að ofurhetur voru bannaðar í bandarikjunum. Ég var að fatta núna að ég hef ekkert sagt frá söguþræði myndarinnar. Ég gleymdi því alveg. Kannski að ég komi inn á hann betur ef ég skrifa aðra færslu. En þetta verður að duga í bili. Leikarinn stóð sig alveg ágætlega í þessu hlutverki. Erfitt að eiga stjörnuleik þar sem hann er eiginlega ekkert merkilegur. En þetta er svona karakterinn sem ég elska. Hann er hæglátur og passar eiginlega ekkert inn í samfélagið eftir að hafa hætt að vera ofurhetja. Hann er viðkvæmur og ég veit ekki mér finnst mjög auðvelt að setja mig í spor hans einhvern veginn. Það gerir það heldur ekkert verra að hann fær gelluna í lokin. Það er gerir þetta líka enn skemmtilegra að hann nær henni af hrokagikkinum dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar. En í rauninni ekkert út á Næturugluna að setja. Ég var alveg þokkalega ánægður.

Ozymandias: Ef þú hefur ekki séð myndina og veist ekki plottið í henni nú þegar þá mæli ég ekki með því að lesa það sem ég ætla að skrifa um hann ozymandias. Þó er ég sennilega búinn að spoila myndinni nú þegar með því að vara við því sem ég ætla ða segja svo það er sennilega ekkert verra fyrir þig að lesa áfram úr þessu. Ozymandias er gáfaðasti maður í heimi. Ekki nóg með það að ég hef ekkert sagt frá söguþræðinum þá hef ég ekkert sagt frá aðstæðunum heldur. Setting er það ekki aðstæður. Ég mundi bara enska orðið og datt ekki betri þýðing í hug. Alla vega þá er kalda stríðið í algleymingi og allir geta dáið ef rússar og bna ákveða að fara í stríð. BNA nær að halda rússunum á mottunni með Dr. Manhattan, sem ég kem betur inn á síðar, en það er ekki fullkomin lausn á vandamálinu. En Ozymandias sem gáfaðasti maður í heimi hefur fundið lausnina. Hann er sem sagt “vondi” kallinn í myndinni. Ég ætla bara að segja frá því sem gerðist í myndinni ég ætla ekki að koma inn á það sem mig minnir að gerist í myndasögunni því ég ætla að glugga í henni á morgun bara til að fá staðfestingu á því að minnið sé ekki að leika mig grátt. Því mig minnir endilega að endirinn og aðalplottið í myndinni hafi verið allt öðruvísi en í myndasögunni. Sennilega til að forðarst að hafa hana 3 tíma í viðbót. En allavega, Ozymandias veit að lausnin á vandamálinu er að gefa bandaríkjamönnum og rússum og bara heiminum öllum sameiginlegan óvin. Þess vegna ákveður hann að skipuleggja hryðuverk í öllum helstu helstu borgum heimsins og kenna síðan Dr. Manhattan um. Hann er kannski ekkert góður hann ozymandias en hann er samt ekkert vondur þannig. Hann er eiginlega bara hrokafullur og lítur kannski niður á allt hitt fólkið af því að hann er svo gáfaður. Hann fjármagnaði hryðjuverkin meðal annars með því að selja action figures með sér og ofurhetjuvinum sínum og gera sig að frægasta manni í heimi eigilega og selja sigi bara geðveikt mikið. Það fer eiginlega bara eftir því hvernig maður lítur á þetta hvað hvort hann sé góður eða vondur. Hann er í rauninni að frelsa heiminn úr þrældómi kjarnavopna en samt er þetta eitthvað svo rangt allt. En alla vega þá er ekkert út á það að setja hvernig leikaranum tekst til. Hann er mjög góður bara. Það er reyndar eitt sem ég vil koma inn á varðandi bara alla karakterana er að þeir berjast allir eins og þeir séu með einhverja svaka ofurkrafta sem þeir eru ekki með. Þeir eru líka ekkert ofurhetjur. Alla vega kölluðust þeir alltaf costumed heroes í bókinni. Dr. Manhattan er eigilnega eina ofurhetjan í allri sögunni en ég kem betur inn á hann NÚNA!

Dr. Manhattan: Ég ætla að byrja með því að afsaka mig á þessum brandara, sem ég er búinn að vera með í gangi. Ég veit ekki hvort lesandinn hefur tekið eftir þvi en ég hef alltaf sagt að ég ætli að fjalla um Dr. Manhattan síðar en þetta var einhver einkahúmor sem er síðan ekkert fyndinn. Alla vega. Dr. Manhattan er blár. Hann er maður sem lenti fyrir slysni inn í kjarnakljúf en fór í þúsund mola og er núna bara einhver orka sem flakkar um. Hann getur líka beislað alla orku og gert bara það sem hann vill. Hann er svona eins og blanda af magneto og hiro nakamura nema hann getur stjórnað öllu en ekki bara málmum. Hann lifir líka í fjórum víddum og getur ferðast um í tíma. Þótt hann sé ekki beint að ferðast um í tíma heldur er hann bara alls staðar í tíma. Allt að gerast á sama tíma. Sem er fukked. Hann er ekki mennskur lengur og það eina sem tengir hann við mannkynið er Silk Spectre og þegar hann missir hana þá fer hann og þá getur ozymandias byrjað the master plan. Eini staðurinn sem ég man eftir að hafa fengið gæsahúð í bókinni er þegar hann er staddur á mars og er að segja frá því hversu óendanlega ómerkilegt mannkynið er og lífið almennt í heiminum. Hvað myndi breytast á jörðinni ef mannkynið myndi hverfa? Eftir nokkur þúsund ár væru öll ummerki um að við hefðum nokkurn tímann verið til horfin ef ekki fyrr. En hvað ef lífið myndi hætta á þessari plánetu? Myndi jörðin ekki áfram snúast í kringum sólina? Sem snýst í vetrarbrautinni sem snýst í einhverjum vetrarbrautaþyrpingum og svo framvegis og svo framvegis? Hvaða máli skiptir það að nokkur efni hafi myndað lífræn efni og síðan lífið? Hvað gerir þessi lífrænu efni eitthvað merkilegri en grjótið í jarðskorpunni. Ég hef sjaldan fundið fyrir jafn mikilli minnimáttarkennd og þegar ég las þetta og ég lenti í alveg þvílíkri tilvistarkreppu í frekar langan tíma. Ég er þó mjög gjarn á svona tilvistarkreppur. Vá ég nenni ekki að skrifa meira, ég er orðinn svo þreyttur í höndunum. Þetta er líka alveg nóg og ég efast um að nokkur nenni að lesa þetta. Takk fyrir mig. Ég ætla samt örugglega að reyna að græða meiri stig á þessari mynd.

yes man

Ég horfði á Yes Man um daginn og ætla að reyna að græða nokkur stig á henni. Jim Carrey er Karl, sem lifir stöðnuðu lífi. Hann vinnur í banka við að lána fólki peninga. Hann hefur gert það síðan hann man eftir sér liggur við. Hann segir alltaf NEI við öllu. Hann grípur aldrei tækifærin sem koma í lífi hans og þess vegna hefur lífið hans verið eins alveg síðan hann byrjaði að vinna. Hann á bara tvo vini annar þeirra var að trúlofa sig og býður honum Karli að koma í trúlofunarpartí. Sá maður var leikinn af gaur sem ég held að hafi verið í einhverjum lögguþætti á RÚV. ÉG man ekki hvað hann hét, ég fylgdist ekki með honum en ég man eftir að hafa séð glitta í kauða og var mjög lengi að koma því fyrir mig hvaðan. Hann á annan við sem er þarna gaurinn með afróið í That 70s show. Ég man eftir því að hafa lesið það einhvern tímann að hann sé bróðir gaurisns sem lék elsta bróðurinn í Malcom in the Middle sem er mjög skemmtileg staðreynd. Mig hafði alltaf minnt að það hafi verið Neil Patrick Harris sem hafði leikið elsta bróðurinn í Malcom in the Middle en wikipedia segir mér að svo sé ekki. En nóg um það. Allavega. Jim Carrey er alltaf að reyna að forðast vini sína og það endar með því að hann rekst fyrir slysni á þennan vin sinn sem var að trúlofa sig og hann býður honum í partíið og hann segist ætla að koma. En nei hann mætir ekki og þá rennur upp fyrir honum að ef líf hans heldur svona áfam á hann eftir að enda einn og yfirgefinn með ömurlegt líf. Í rauninni finnst mér ótrúlegt að það hafi ekki enn gerst því að Jim Carrey er alla vega fimmtugur held ég. Svo hittiir hann gamlan kunningja sem lítur út eins og krókódíla dundee hann er í svona khakigalla og greinilegt að hann er ævintýramaður. Hann segir honum að hann eigi þessu öllu að þakka að hann hafi farið á eitthvað Jánámskeið sem kennir fólki að segja já við öllu. Hann kíkir á þetta námskeið og fyllist af eldmóði og fer að segja já jáj já og aftur já við öllu. Endar með því að hann keyrir einhvern róna upp í skóg, gefur honum að allla peningana sína og leyfir honum að nota símann sinn þangað til að hann verður batteríslaus. Ekki nóg með það þá verður hann bensínlaus í þokkabót en hittir þá fyrir slysni gullfallega stelpu sem er leikin af Zooey Deschanel. Þau kyssast og síðan hittast þau aftur seinna. AFTUR fyrir slysni og AFTUR útaf því að hann sagði JÁ við að fara á tónleika. Þau verða ástfangin og svo byrjar þessi sama gamla rómantískragamanmyndadella eins og við öll vitum hvernig er. Fyrst er geðveikt gaman en svo kemur ietthvað upp á svo þau hætta saman og maður fær hnút í magann en síðan fer allt vel að lokum. EF ekki hefði verið fyrir gömlu góðu stælana í Jim Carrey þá hefði þessi mynd verið ömurleg vægast sagt. Þetta er eiginlega afturhvarf til svona gömlu myndanna eins og dumb and dumber. Ég veit ekki ég fíla hann dáldið í þessu Truman Show, Eternal Sunshine dæmi. Mér finnst hann eiginlega betri í þessum alvarlegu hlutverkum ég veit ekki af hverju. Það er eitt frekar fyndið líka það er gömul kona sem að býðst til að totta Jim Carrey og úta fþ´vi að hann fór a´Jánámskeið og þarf að segja JÁ við öllu þá segir hann já og þessi gamla kona tekur úr sér fölsku tennurnar og tottar hann. Þetta fékk mig til að hugsa aðeins. Jim Carrey er svona fimmtugur. Þetta hefði verið fyndið í american pie eða einhverri svona college gamanmynd. En hann er fimmtugur og þetta var kannski svona sjötug kona að totta hann. Hann er líka alveg frekar gamall. Hvað er málið. Jim Carrey var samt eiginlega eini gaurinn sem fékk tækifæri til að skapa einhverja persónu í þessari mynd, mögulega Zooey Deschanel líka. Eiginlega eina ástæðan fyirr því að hún var fín í þessari mynd líka var að hún er svo falleg. Ég held að ég sé eiginlega bara ´ástfanginn af henni. En hún var smt ekkert spes í þessari mynd og þegar ég hugsa til þess þá man ég eiginlega ekkert eftir neinni mynd sem hún hefur verið eitthvað sérstaklega góð í. Hún er bara allataf þarna og er svona forvitnilega sæt einhvern veginn. Og síðan var það That 70s show gaurinn sem var eiginlega bara hræðilegur í þessari mynd. Hann var eiginlega ekki neitt hann kom í nokkrum atriðum og hann átti að vera svona gaurinn sem er alveg sama. Það hefði hæglega verið hægt að sleppa þessu hlutverki. Hann var alltaf þarna eins og krækiber í helvíti. Það er ekki séns að Jim Carrey yrði vinur þessa manns. Hann er sennilega bara vinur leikstjórnas eða eitthvað og grátbað hann um að skrifa sig inn í myndina. En annars gerði hann ekki neitt. Eina ástæðan fyrir því að ég man eftir honum var að ég kannaðist við andlitið á honum. Þetta hefði verið eðliegt ef hann hefðiverið bara einhver aukapersóna en hann var kynntur einhvern veginn sem svona aðalaukapersóna alveg eins og hinn vinur hans en sá gaur spilaði í raun mun stærri rullu. Það hefði líka gefið meira svona impact ef að sá trúlofaði hefði verið eini vinur hans. Þá hefði það verið þannig að þegar hann mætti ekki í trúlofunina og gaurinn sleit vinaböndunum þá hefði hann þurft að taka sig almennilega saman í andlitinu. Þetta meikaði eiginlega bara ekki sens að hafa that70sshow með í myndinni. Þetta er eiginlega bara skref afturábak fyrir Jim Carrey. Ég var að fíla það svo mikið að hann væri farinn að gera svona almennilegar myndir aftur. Ef það hefði ekki verið fyrir alla fyndnu taktana hans þá hefði þetta verið alveg fáránlega leiðinleg mynd og ég hefði sennilega gefist upp á henni í miðjum klíðum. Þegar ég horfi á svona myndir þá reyni ég að horfa á þær algjörlega með engum væntingum og þá nýt ég þeirra yfirleitt. En maður á eiginlega að búast við meira af Jim Carrey það er ekki annað hægt. Dumb and Dumber, Ace Ventura, the Mask og svo man ég eftir einni sem ég leigði einu sinni á Laugarás sem hét Earth Girls are Easy. Hún var með honum og Jeff Goldblum og var mjög fyndin. Hann gat einu sinni gert góðar svona myndir. Eina sem mér dettur í hug og það er eiginlega að hann hafi farið á eitthvaðsvona námskeið sjáflur og orðið að segja já við handritinu. Nei þetta var alveg ömurlegur brandari hann var eiginlega það ömurlegur að það hann var ekki einu sinni svona ömurlega fyndinn. Ég biðst afsökunar á því. Ég vil líka biðjast afsökunar á þessari ringulreið. Þetta var skrifað allt í nánast einu flæði og ég nenni eiginlega ekki að skipta þessu niður.