Jæja, þá er það að gera upp árið 2008. Ég veit ekki alveg hvernig ég ætla að nálgast þetta. Hvort ég eigi að gera lista yfir bestu myndirnar og verstu myndirnar eða eitthvað annað. Ætli ég fjalli ekki bara um þær myndir sem eru mér minnisstæðastar frá árinu 2008.
Fyrsta bíóferðin sem ég man eftir var 24. febrúar. Ástæða þess að ég man dagsetninguna var að þetta kvöld voru Óskarsverðlaunin afhend og ég var í vafa hvort ég ætti að sjá There will be blood eða No country for old men. Þar sem ég er nokkur aðdáandi Coenbræðranna varð No country for old men fyrir valinu. Mér fannst hún alveg frábær og kom mér ekki á óvart þegar ég sá seinna um kvöldið að hún hafi hlotið Óskarsverðlaunin. Þegar ég skrifa þetta þá man ég þó að ég á enn eftir að sjá There will be blood, sem er synd. Enn ein myndin komin á listann.
Aðra mynd, sem var að mig minnir líka tilnefnd, sá ég aðeins fyrr. Það var Juno. Ég var ekki alveg jafn dolfallinn yfir þeirri mynd og Coenmyndinni. Þó fannst mér hún alveg ágæt. Sagan var sniðug og ágætlega útfærð en mér fannst persónan Juno vera eitthvað svo tilgerðarleg. Eiginlega frekar gervilegt hvernig hún tókst á við vandann. En svo sá ég myndina í annað skiptið í sumar og þá rann eiginlega upp fyrir mér að kannski var þetta vegna þess að maður er ekki vanur svona kvenkyns karakterum í Hollywoodmyndum. Ég er ekki viss enn þá hvort ég elski hana eða hata hana. Ætli ég verði ekki að horfa á myndina einu sinni í viðbót til að útkljá það.
Næsta mynd sem mér dettur í hug gæti verið sú mynd sem kom mér mest á óvart á þessu ári var The Mist. Ég minnsti þess enn með hryllingi þegar ég gerði þau mistök að sjá endurgerðina af the Fog sem kom út fyrir nokkrum árum. Eina ástæða þess að ég sá hana var að ég hafði einhvern tímann séð upprunalegu útgáfuna og minnti að hún hefði verið alveg fín. En endurgerðin var mjög slæm. Einhverra hluta vegna hélt ég að the Mist væri önnur endurgerð af myndinni (sennilega út af nafninu?) en ég hafði lesið ágætis hluti um hana og ákvað að láta til leiðast. Þetta er allt önnur saga en the Fog og mér fannst myndin vera algjör snilld. Sennilega var það vegna þess hve litlar væntingar ég gerði til hennar en þær voru sama og engar. Þoka leggst yfir lítinn bæ og skrítnir hlutir fara að gerast í henni. Hópur fólks flýr inn í matvöruverslun og þar verður eitthvað valdabrölt. Síðan kemur í ljós að það eru einhver skrímsli í þokunni og svona eins og gengur og gerist. Endirinn á myndinni þótti mér líka algjör snilld og átti alls ekki von á honum. Ég ætla samt ekki að spoila honum, en hann er samt algjör snilld.
Önnur mynd sem kom mér á óvart var In Bruges. Ég veit ekkert af hverju ég ákvað að sjá hana. En einhverra hluta vegna þá endaði ég í bíósal á In Bruges einhvern tímann síðasta vor. Hún var á einhvern hátt svipuð og Snatch og Lock Stock og þannig myndir en risti einhvern veginn dýpra en það og var ekki bara svartur gamanhasar. Það voru miklu meiri tilfinningar í gangi og staðsetningin gerði hana miklu dularfyllri en fyrrnefndar myndir. Þessi dularfulli bragur og hvernig myndin leit út, svo litlaus og mött, gerði það að verkum að manni leið eins og maður væri fullur í bíó.
Skemmtilegasta gamanmyndin er annað hvort Forgetting Sarah Marshall eða Tropic Thunder. Allavega af þeim sem ég man eftir. Mér hefur alltaf þótt rómantískar gamanmyndir vera mjög góðar og ég er mikill aðdáandi af öllu þessu sem Judd Apatow er að gera. Þótt myndirnar sem hann framleiðir séu oft misjafnar þá eru þessar vönduðu oftast gullmolar. Forgetting Sarah Marshall fannst mér ein af þeim myndum. Jason Segel var mjög góður í myndinni og þótt maður hafi kannski ekki hlegið neitt rosalega mikið þá var hún bara eitthvað svo skemmtileg. Eini slæmi hluturinn fannst mér að þessi sem leikur Veronica Mars hafi verið í henni. Hún fer alltaf eitthvað í taugarnar á mér og breski rokkarinn fór líka aðeins í taugarnar á mér þótt ég hafi kannski aðeins lært að meta hann þegar leið á myndina. En Jason Segel var skemmtilegur og Mila Kunis líka og hún er líka svo falleg. Svo fannst mér besta persónan í myndinni vera Paul Rudd sem brimbrettakennarinn, mér hefur alltaf þótt mikið til hans koma og hann brást ekki í þessu hlutverki.
Ég hef skrifað færslu áður á þessu bloggi um Tropic Thunder. Hún var svona gamanmynd sem er geðveikt fyndin og þegar ég hugsa um það núna þá var hún miklu fyndnari en Forgetting Sarah Marshall. En þar sem ég er svo mikið fyrir rómantískar gamanmyndir þá ætla ég að hafa þær saman á toppnum. En Tropic Thunder var mjög fyndin, alveg svona illt í maganum fyndin oft á tíðum og ég kann að meta þannig myndir. Ég man að fyrsta svona myndin sem ég man eftir að hafa séð var Rocket Man, þá var ég lasinn og ég varð eiginlega bara frískur á því að sjá hana af því að mér þótti hún svo fyndin. En ég nenni eiginlega ekki að vera skrifa meira um Tropic Thunder. Hún er einhversstaðar neðar á blogginu þannig ég læt það bara vera.
Guilty Pleasure ársins er klárlega the Bucket List. Morgan Freeman og Jack Nicholson leika tvo gamla kalla sem eru að deyja í mynd fyrir gamalt fólk. Auk þess er hún leikstýrð af Rob Reiner sem gerði Sleepless in Seattle og í rauninni minnist ég hans bara fyrir þá slæmu útreið sem hann fékk í einhverjum South Park-þætti (ég hef samt ekki séð Spinal Tap en hef heyrt að hún á að vera góð). En Bucket List er alveg ekta svona drama eitthvað sem amma mín myndi líka. En Jack Nicholson og Morgan Freeman eru alveg frábærir og manni hlýnar um hjartarætur að hinn sálarlausa moldríka einfara sem Nicholson leikur mýkjast og bindast djúpum vináttuböndum við fátæka verkamanninn hans Freemans. Þetta er svona saga sem maður tárast yfir en síðan þegar maður kemur út úr bíósalnum þá afneitar maður því hvað hún var falleg og fer umsvifalaust að tala um hvað þetta hafi verið hallærislegt og asnalegt. En núna er ég eiginlega að viðurkenna að mér þótti hún vera bara virkilega góð og hún kveikir þann vonarneista í hjarta manns að kannski er bara allt í lagi að verða gamall.
Núna er ég búinn að skrifa allt of mikið og enn eru alveg nokkrar myndir eftir á listanum yfir þessar minnisstæðu myndir sem ég gerði í morgun. Nokkrar þeirra eru eiginlega alveg ómissandi svo ég hef ákveðið að reyna að skrifa aðra færslu í kvöld með fleiri myndum. Ísak.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Flott færsla. 9 stig.
Post a Comment