Í dag fór ég á fyrirlestur leikstjórans Yung Chang og einnig á sýningu myndar hans Upp Yangtze-fljótið sem hann var viðstaddur og svaraði spurningum í lok myndarinnar.
Fyrirlesturinn byrjaði Yung á að kynna sig. Hann er ungur kanadískur leikstjóri af kínverskum uppruna. Hann lærði kvikmyndagerð í Concordia-háskóla í Montreal í Kanada og er nýlega útskrifaður þaðan. Upp Yangtze-fljótið er önnur heimildarmyndin hans en fyrsta myndin hans heitir Earth to Mouth og fjallar um kínverska bændur í Kanada sem rækta kínverskt grænmeti með hjálp mexíkóskra verkamanna. Hann minntist á að í þeirri mynd væri bara töluð kínverska og spænska.
Eftir kynninguna færði hann sig yfir í nýju myndina sína. Innblástur fyrir myndinni fékk hann í ferðalagi um Kína sem hann fór með afa sínum árið 2002. Afi hans var í kínverska þjóðernisflokknum fyrir byltinguna 1949 og flúði til Kanada eftir hana. Þeir fóru í siglingu upp Yangtze-fljótið í leit að æskuslóðum afa hans. Siglingar sem þessar eru kallaðar kveðjusiglingar (farewell tours) því þar er verið að byggja gríðarstórt raforkuver og því fylgir stærsta stífla sem byggð hefur verið. Þessari stíflu fylgir uppistöðulón sem er yfir þúsund ferkílómetrar. Vegna lónsins þurfa tvær milljónir manna að flytjast búferlum og Yung minntist á að jafnvel tvær milljónir manna í viðbót þurfi að flytja. Við afa hans blasti ný Kína sem var gerólík því sem hann yfirgaf árið 1949.
Þessir miklu búferlaflutningar heilluðu Yung sem datt í hug að gera heimildarmynd um mannlegu hliðina á framkvæmdunum. Hann vildi fylgjast með fólkinu sem framkvæmdin hafði mest áhrif á. Fólkinu sem býr á því svæði sem fer undir uppistöðulónið. Hann endaði með því að fylgja nokkrum viðfangsefnum sem allir tengdu ferjufyrirtæki sem sá um þessar kveðjuferðir. Í endanlegri útgáfu myndarinnar er fylgst með fátækri bændafjölskyldu, en dóttir þeirra vann hjá ferjufyrirtækinu og 19 ára miðstéttar skólastrák sem var úr vel stæðri fjölskyldu. Einnig vildi hann grípa þær breytingar sem eru að eiga sér stað í Kína. Breytingar frá sjálfsþurftar bændasamfélagi til nútíma vestræns neyslusamfélags. Á árunum 2002-2006 fór hann nokkrar ferðir til Kína til að taka upp efni til að sýna framleiðslufyrirtækjum til að fá fjármagn fyrir myndinni. Sumt af þessu efni endaði í endanlegri útgáfu myndarinnar. Yung lýsti því yfir að í heimildarmyndum sínum reyni hann að forðast það að vera líkt og blaðamaður eða fréttamaður. Hann vill grípa tilfinningar viðfangsefnanna og endurspegla raunveruleikann eins og hann er.
Næst fór Yung í tæknilegu hliðarnar. Kvikmyndina tók hann með Panasonic P2 HD myndtækni. Á þeim tíma sem myndin var gerð voru einungis til 8 gígabæta minniskubbar í myndavélina sem taka bara um 10 mínútur af efni svo hann þurfti að vera stöðugt að skipta um kubba (Hann sagðist hafa tekið 200 klukkustundir af myndefni sem þýðir að hann hefur þurft að skipta 1200 sinnum um minniskubb). Hann notaðist aðeins við kínverskt tökulið og reyndi alltaf að hafa það eins fámennt og hann gat. Þegar hann var að taka á landi var hann oftast bara með 3 manna tökulið (hljóðmann, aðstoðarmann og sig sjálfan) en þegar hann var að taka um borð í ferjunni gat hann leyft sér að að notast við 5-6 manns. Hann notaðist einungis við kínverskt tökulið því hann vildi ekki vera að brjótast inn í heim fólksins heldur vera hluti af honum.
Áður en hann hóf tökur eyddi hann tíma með viðfangsefnum sínum til að kynnast þeim og byggja traust svo þau væru opnari fyrir myndavélinni. Til dæmis eyddi hann mánuði með fjölskyldunni áður en hann hóf tökur. Hann talaði um spurningatækni sem var nytsamleg í heimildarmyndagerð. Að finna einhverjar undirliggjandi tilfinningar hjá fólki og spyrja þau óbeint út í þær og leyfa þeim að tjá tilfinningar sínar sjálft. Hann sýndi myndbrot úr myndinni þar sem hann hafði áður spurt 16 ára stelpu í fjölskyldunni sem átti að fara að vinna hjá ferjufyrirtækinu hvort hún vissi að heimili þeirra myndi fara undir vatn. Þá spurði hún foreldra sína hvað þau myndu gera og komst að því að hún yrði að vera fyrirvinna heimilisins því bæði væru þau ólæs og áttu litla atvinnumöguleika annars staðar. Þett var mjög tilfinningaríkt móment og minntist hann á að til að gera góða heimildarmynd þá þarf bara þrjú svona móment og eitthvað til að fylla upp í inn á milli.
Hann fjallaði um mikilvægi tónlistar í heimildarmyndum og hvernig hún getur skapað stemninguna í myndinni. Hann sagði að kanadískur vinur hans sem sá um tónlistina í myndinni hafi gefið honum geisladisk með tónlist sem hann hélt að gæti passað inn í myndina. Þetta var allt frá þýsku rafpönksveitinni Can til klassískrar tónlistar. Á endanum held ég að öll tónlistin hafi verið frumsamin fyrir myndina.
Hann talaði um mikilvægi þess að myndin sýndi ekki bara vesældina sem fylgir breytingunum og sýna ekki bara viðfangsefnin í því ljósi að allt sé ömurlegt þrátt fyrir að það sé nánast þannig. Það verður líka að vera húmor og sum atriði í myndinni sjálfri voru mjög fyndin. Hann benti líka á að þegar maður gerir heimildarmynd þá þarf myndavélin ekki alltaf að beinast að þeim sem viðtalið er tekið. Í umhverfinu er stundum hlutir sem eru jafnvel betur við hæfi en persónan sjálf. Hann benti líka á mikilvægi þess að hljóðið sé gott en myndatakan sjálf er ekki alltaf það mikilvægasta. Ef hljóðið er gott er það nothæft og það er hægt að setja eitthvað annað í myndrásina en ef hljóðið er slæmt þá er klippan algjörlega ónothæf. Hann benti á það að hann gat sagt söguna frá þremur sjónarhornum. Sjónarhorni kínverjans, sjónarhorni ferðamanns og einnig frá sínu eigin sjónarhorni sem kínverskur kanadamaður sem talar bæði ensku og kínversku og er eiginlega með aðra löppina í hvoru landi. Í myndinni reyndi að hann nota öll þrjú sýnishornin.
Þar sem þessi færsla er kannski í lengra lagi hef ég ákveðið að skrifa sér færslu um myndina sjálfa.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Mér finnst eins og við höfum verið á sitthvorum fyrirlestrinum. Eða þá að þú sért bara svona miklu betri í ensku og eftirtektarsemi en ég ...
Og hann útskrifaðist fyrir 9 árum. Það er ekki nýlegt ... nema
Okei, ég viðurkenni að ég blandaði nokkrum svörum hans af Q&A eftir sýningu myndarinnar, en hann var aðallega bara að tala um hluti sem komu fram á fyrirlestrinum.
Mjög fín færsla. 9 stig.
Vá, 200klst. á P2 kubba! Það er ekkert smá. Ætli hann hafi þá verið með stórabróður myndavélarinnar okkar, HVX200?
Ég geri samt ráð fyrir því að hann hafi ekki notað þúsund kubba, því þeir eru ógeðslega dýrir.
Mig langaði á þennan fyrirlestur, en þetta var eini dagur vikunnar þar sem ég gat ekki hagrætt deginum eftir RIFF dagskránni.
Post a Comment