Tuesday, September 30, 2008
Upp Yangtze-fljótið II: kvikmyndin sjálf
Jæja þetta er framhald af fyrri færslu þar sem ég skrifaði um fyrirlestur Yung Chang um heimildarmyndagerð og heimildarmynd sína Upp Yangtze-fljótið.
Myndin fjallar fyrst og fremst um breytingar á kínversku samfélagi. Brandari sem sagður er af kínverskum starfsmanni í ferju sem siglir um fljótið endurspeglar þær breytingar. Hann var svo hljóðandi. Bandaríkin og Kína eru að keyra eftir götu. Brátt koma þeir að gatnamótum og ef þeir beygja til vinstri fara þeir í átt að kommúnisma og ef þeir beygja til hægri fara þeir í átt að kapítalisma. Bandaríkin leggja til að beygja til hægri. Kína gerir það með því skilyrði að þeir gefa stefnuljós til vinstri.
Við byrjum á ferju sem er að sigla upp skipastiga. Þetta er skipastiginn í Three Gorges Dam stærstu vatnsvirkjun í heimi sem er í framkvæmd í Kína. Við erum stödd á kveðjusiglingu. Síðasta tækifæri til að sjá það land sem mun verða fljótsbotn þegar stíflan verður tekin í notkun. Á siglingunni eru nánast einungis ríkir ferðamenn frá Vesturlöndum en allt starfsfólkið er kínverskt. Næst kynnumst við kínverskri bændafjölskyldu. Þau búa í hrörlegum kofa við bakka fljótsins. Þau eru hjón með þrjú börn. Elsta dóttirin sem er sextán ára er á síðasta ári í grunnskóla. Fjölskyldan lifir á því að rækta grænmeti á landi sem mun brátt sökkva undir fljótið. Þá neyðast þau til að flytja í borgina og þá hafa þau ekkert lifibrauð því hjónin eru bæði ólæs og kunna ekki aðra iðju en grænmetisrækt. Það er einungis ein lausn á málinu og það er að elsta dóttirin verði send að vinna á ferjunni þegar hún er búin með skólann og vinni þannig fyrir fjölskyldu sinni. Við kynnumst líka ungum manni sem er líka að fara að vinna á ferjunni. Fjölskylduaðstæður hans eru ólíkar bændafjölskyldunnar. Hann er af vel stæðu fólki kominn og er með háleita drauma. Hann er samt hrokafullur og lítur niður á alla samstarfsmenn sína.
Mér fannst myndin virkilega góð. Kannski eyðilagði fyrir að hafa verið á klukkustundarlöngum fyrirlestri um allar pælingarnar á bak við myndinni fyrr um daginn en ég féll hreinlega fyrir henni. Hún nær algerlega að grípa tilfinningar persónanna en samt er þetta einhvern veginn hlutlæg sýn á þær. Hún sýnir á einlægan hátt um afleiðingar þessarar stíflu á fólkið og verður hvorki of persónuleg né ekki nógu persónuleg.
Að lokum má sjá trailerinn af heimildarmyndinni Upp Yangtze-fljótið.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fín færsla. 5 stig.
Ég ætlaði nú ekki á þessa, en nú er ég ekki viss. Mér finnst þetta nefnilega soldið áhugavert viðfangsefni, hef m.a. séð leikna mynd um fólkið á svæðinu (hún heitir Still Life og var nokkuð góð).
Post a Comment