Laugardagskvöldið síðasta fór ég á Tropic Thunder í Regnboganum. Bíómynd um leikara að leika í bíómynd. Gamanmyndakóngurinn Ben Stiller leikstýrir myndinni, en hann hefur leikið í gullmolum eins og The Royal Tenenbaums og There's Something About Mary og leikstýrt meðal annars The Cable Guy og Zoolander. Einnig framleiddi hann myndina og skrifaði í slagtogi við Justin Theroux og Etan Cohen (honum skal ekki vera ruglað saman Coen-bróðurinn nafna hans). Ég fór á myndina með nokkrar væntingar því ég hafði heyrt góða hluti um hana. Ég óttaðist jafnvel að hún ylli mér vonbrigðum eftir alla þessa uppbyggingu líkt og Hostel gerði hérna um árið og jafnvel Dark Knight sem var hálf-eyðilögð fyrir mér með því að segja að hún væri besta mynd sem gerð hafi verið. En ég varð ekki fyrir vonbrigðum með Tropic Thunder og hún reyndist bara vera stórgóð skemmtun.
Í upphafi myndarinnar voru fake trailerar líkt og í upphafi Planet Terror og Death Proof. Fyrst var sýnt tónlistarmyndbandið I Love Tha Pussy með rapparanum Alpa Chino sem er að kynna orkudrykkinn Booty Sweat og súkkulaðistykkin Bust-a-nut. Síðan er sýndur trailer að sjöttu myndinni í Scorched-hasarmyndaseríunni með útbrunna vöðvatröllinu Tugg Speedman sem leikið er af Ben Stiller. Því næst er sýndur trailer með heróínfíklinum Jeff "Fats" Portnoy (Jack Black) þar sem hann leikur öll hlutverkin í bíómynd um feitustu fjölskyldu Bandaríkjanna sem prumpar stanslaust. Loks er það trailer með Óskarsverðlaunaleikaranum Kirk Lazarus (Robert Downey Jr.) þar sem hann leikur samkynhneigðan munk í ástarsambandi við annan munk sem leikinn er af Tobey Maguire. Mér þótti þessir trailerar vera mjög sniðugir þar sem þeir voru ekki aðeins skemmtanagildisins vegna heldur þjónuðu þeir einnig þeim tilgangi að kynna leikarana.
Ferill Tugg Speedman er hraðri leið í ræsið. Hann er gjörsamlega búinn að blóðmjólka hasarmyndaseríunni sem skaut honum á stjörnuhimininn. Nú veitist honum gullið tækifæri að leika aðalhlutverk í sannsögulegri Víetnamstríðsmyndinni Tropic Thunder sem byggir á raunum herforingjans Four Leaf Tayback sem leikinn er af Nick Nolte. Myndin er prýdd stjörnunum sem komu fram í trailerunum. Helstan ber að nefna Kirk Lazarus sem er í hlutverki blökkumannsins Sgt. Osiris. Kirk Lazarus er method leikari og fór í húðlitunaraðgerð fyrir myndina. Eftir að risastór sprengingaratriði fer úrskeiðis fyrir sakir duttlunga leikarana blæs framleiðandinn (Tom Cruise) myndina af. En leikstjórinn er staðráðinn í ljúka gerð myndarinnar og fer með leikarana djúpt í frumskóga Víetnam kemur fyrir sprengiefnum í kringum þá en slysast til að stíga á jarðsprengju og deyr. Nú eru leikararnir einir eftir í frumskóginum og vita ekki hvort að allt sem gerist í kringum þá sé leikur eða alvara.
Eins og áður sagði þá er myndin prýðisskemmtun og sennilega besta mynd sem Ben Stiller hefur gert. Hvað myndin lýtur vel út setur hana upp á hærri stall en venjulegar hollywood-gamanmyndir og greinilegt að hún hefur kostað heilan helling. Robert Downey Jr. er mjög góður sem Kirk Lazarus og Tom Cruise kemur skemmtilega á óvart sem framleiðandinn.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ágæt færsla. 5 stig.
Post a Comment