Jæja RIFF hófst í gær og í tilefni af því ákvað ég að eyða kvöldinu í fjórða sal Regnbogans.
Berlín kallar
Þessi mynd fjallar um þýska plötusnúðinn Martin sem kallar sig DJ Ickarus. Við fylgjumst með honum þegar hann er nýkominn heim til Berlínar eftir tónleikaferðalag með kærustu sinni og umboðsmanni Mathilde. Eftir ærlegt heimkomudjamm vaknar Martin á geðsjúkrahúsi. Í e-töflunni sem hann tók kvöldið áður hafði verið lífshættulegt ofskynjunarlyf. Kærastan fer frá honum og platan sem hann hefur verið að gera er sett á ís. Nú þarf Martin að taka sig saman í andlitinu og koma lífi sínu á réttan kjöl á ný.
Mér fannst þessi mynd vera alveg ágæt. Tónlistin var mjög stór partur af henni og gaf myndinni mjög góðan fíling. Samkvæmt heimasíðu hátíðarinnar er sá sem leikur Martin raunverulegur plötusnúður og sá sjálfur um tónlistina í myndinni. Hann virkar mjög vel í hlutverkinu og sennilega er reynsla hans ástæða þess að hann var svona góður. Þrátt fyrir að myndin hafi verið alvarleg þá var hún alveg lúmskt fyndin því Martin var svo sjálfselskur og hégómagjarn að maður gat ekki annað en brosað. Aðrar personur í myndinni voru góðar en mér fannst kærastan hans ekki vera alveg nógu þétt í hlutverkinu. Mér fannst hún vera fjarlæg, en kannski var það þannig sem maður átti að skynja hana, þegar ég hugsa til þess þá get ég ekki ímyndað mér hana á annan máta. En ég veit það ekki það var allavega eitthvað sem gerði það að verkum að mér hálfleiddist stundum í atriðunum sem einblíndu á hana. Þau atriði sem gerðust á geðveikrarhælinu fannst mér flest vera vísanir í One flew over the cuckoo's nest. Geðlæknirinn sem sá um spítalann minnti óneitanlega á Nurse Ratched. Það var líka fyllerísatriði þar sem Martin hringdi á gleðikonur og sannfærði starfsmann á vakt að nú skyldu þeir halda ærleg partí. Endaði það með því að geðlæknirinn kom morguninn eftir og allt var í rúst. Þetta atriði var alveg mjög líkt atriði í OFOTCN og ég held að það fari ekki á milli mála að það hafi verið vísun í það.
Upprisan
Portúgölsk mynd sem stóð í bæklingnum að ætti að fjalla um missi. Ég gafst upp á henni eftir rúmar 40 mínútur. Hún var alveg svakalega hæg og oft á tíðum botnaði ég bara ekkert í því sem var í gangi. Það var vaðið úr einu í annað og það var erfitt að gera sér grein fyrir því hvað væri í gangi hverju sinni. Á þessum 40 mínútum voru ekki sögð nema kannski 20 orð, en annars ríkti bara þögn. Myndatakan var mjög flott en mér fannst close-up eiginlega vera ofnotað og það gerði það að verkum að ég átti erfitt með að gera mér grein fyrir atburðunum sem áttu sér stað. Ég ákvað að fara frekar heim og fá mér að borða en að láta mér leiðast í bíósalnum.
VIÐBÓT: Ég tók eftir því að morgun að Morgunblaðið gaf myndinni fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum. Ég veit ekki hvort að síðari hluti myndarinnar hafi verið það frábær að hún verðskuldaði þessa einkunn eða að gagngrýndandinn hafi séð eitthvað sem ég hreinlega tók ekki eftir. Svo er auðvitað smekkur fólks misjafn. En mér finnst samt oft að einhverskonar "Nýju fötin keisarans" heilkenni hrjái fólk þegar það horfir á myndir sem eiga að teljast "listrænar". Að því finnist myndin svona frábær hreinlega af því að upplýstu fólki á að finnast hún frábær. En ég veit ekki, þetta eru bara vangaveltur.
Rannsóknarmaðurinn
Ungversk mynd um fámála og svipbrigðasnauða krufningalækninn Tibor. Móðir Tibors er með krabbamein í beinmergnum og liggur deyjandi á spítala. Herbergisfélagi móður hans á spítalanum bendir honum á spítala í Svíþjóð þar sem hún getur fengið rétta meðhöndlun við sjúkdómnum. Hann sækir um en er synjað vegna peningaskorts. Stuttu síðar nálgast hann maður sem býður honum næga peninga fyrir aðgerðinni og meira til fyrir að fremja morð. Eftir að hann fremur morðið vakna spurningar og Tibor einsetur sér að komast að því hver það var sem lét hann fremja morðið og af hverju. Þessi mynd var mjög fyndin. Tibor er svo svipbrigðalaus og kaldur en samt einhvernveginn einlægur. Eina sem hægt er að gagnrýna er að seinni hluti myndarinnar er frekar langur og eiginlega bara frekar langdreginn en það er bætt um með góðu plotti í lokin og einkar skemmtilegu atriði sem gerist innan í höfðinu á Tibor. Í heildina litið var myndin bara afbragðsgóð skemmtun.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Fín færsla. 7 stig.
Ég er ekki búinn að sjá Upprisuna (og langar ekki til þess) en ég hef hitt fleiri sem fíluðu hana engan veginn. Þ.a. ég held að þetta sé frekar nýju-fötin-keisarans dæmi hjá gagnrýnandanum en að þú hafir misst af einhverju.
Mér fannst Rannsóknarmaðurinn hins vegar snilld. Hún er líklegast uppáhaldsmyndin mín á RIFF hingað til.
Post a Comment