Sunday, January 25, 2009

2008 #2

Þá held ég áfram með listann minn.

M. Night Shyamalan mynd ársins var The Happening. Hún fékk alveg afar slæma dóma og ég hafði lesið nokkra áður en ég horfði á hana. Mér hefur alltaf þótt frekar mikið til mynda hans koma. Meira að segja til þeirra sem hafa fengið slæma gagnrýni. Til dæmis þótti mér the Village vera mjög góð og Lady in the water alveg ágæt líka. Bæði voru þetta eiginlega bara nútíma-ævintýri sem mér þótti mjög flott. The Happening þótti mér alveg sæmileg. Kannski dáldið erfitt plott en það gekk samt alveg ágætlega upp. Mér þykja bæði Mark Wahlberg og Zooey Deschanel vera skemmtilegir leikarar. Smáserían the Tin Man (frá sci-fi channel) með Deschanel í hlutverki Dóróteu fannst mér skemmtileg. En alla vega the happening var kannski ekki alveg jafn skemmtileg og hinar myndirnar hans en ég skemmti mér samt alveg ágætlega yfir henni. Ég varð alveg slatta hræddur. En ég verð líka yfirleitt frekar hræddur yfir svona myndum.

Vonbrigði ársins voru annað hvort Pineapple Express eða Indiana Jones. Báðar myndirnar þóttu mér alveg fínar en ég gerði svo gífurlegar væntingar til þeirra að ég varð fyrir vonbrigðum. Ég bjóst við því til dæmis að Pineapple Express myndi færa þessar stónergamanmyndir upp á hærra plan en þeim tókst það ekki. Hún var alveg ágætlega fyndin og dáldið skemmtileg. Mér finnst líka Seth Rogen vera skemmtilegur. Hann er einhvern veginn fyndinn á svo áreynslulausan hátt. Það sem eyðilagði kannski pinku fyrir Pineapple Express hjá mér að ég var búinn að heyra frá einhevrjum að þetta væri bara alveg GEÐVEIK mynd en svo reyndist ekki vera. Ég var alla vega pinku svekktur. Indiana Jones hún var kannski meira sönn vonbrigði. Geimverur eiga ekki heima í Indiana Jones. Svo var atriðið með ísskápinn alveg rosalegt. Auðvitað þurfa atriði í svona myndum ekki endilega að vera raunveruleg en þetta var fannst mér full langt gengið. Svo var ég lika nýbúinn að horfa á allar hinar myndirnar í maraþoni kvöldið áður og ég var svekktur.

X-files myndin var ekki jafn vond og ég bjóst við. Ég hélt ég vissi alveg hvað ég væri að fara út í með því að horfa á hana en hún var ögn skárri en það. Þótt hún hafi kannski neglt síðasta naglann í líkkistu þessa þátta þá skildi hún kannski við þá með smá stolt. Fyrri myndin þarna X-files the movie eða ietthvað álíka var miklu betri að mér finnst. Hún var líka að einbeita sér að meginplottinu í X-files á meðan þessi mynd var bara eins og einhver stakur þáttur og kannski ekkert svo góður stakur þáttur. Hálf myndin fór líka í það að fá Mulder aftur til að vinna með FBI sem var frekar leiðinlegt. Annars var þessi mynd alveg fín ef ég væri að gefa henni einkunn myndi ég gefa henni 5.

Teiknimyndin var án efa Wall-E ég held að það hafi ekki komið nein önnur teiknimynd sem var eitthvað. Ég sá Óskarstilnefningarnar um daginn í mogganum og þá voru bara 3 myndir tilnefndar að mig minnir. Wall-E, Kung-Fu Panda og Bolt. Ég hef ekki séð Kung-Fu Panda og Bolt. Mig langar ekkert svo mikið til að sjá þær en þar sem ég hef ekki séð þær er ég ekkert dómbær. Wall-E var held ég bara eina teiknimyndin sem ég sá. En hún var samt algjör snilld. Ég held að ég hafi ekki verið svona djúpt snortinn af teiknimynd síðan bara Lion King eða eitthvað. Kannski skógardýrið húgó ég veit ekki. En allavega var Wall-E alveg æðisleg. Ég dýrka svona post-apocalyptic myndir og tölvuleiki og þessi mynd kom með svona dáldið öðruvísi sín á það. Ekki einhverjir menn með gasgrímur og vélbyssur að berjast við stökkbreytt skrímsli eftir risastórt kjarnorkuslys eða Zombie-árás, bara eitt lítið vélmenni á allri jörðinni. Hún var mjög krúttleg og hún var líka mjög djúp. Góð til að kenna börnum að hugsa vel um jörðina.

Dark Knight var alveg frábær. Ég horfði á hana aftur um síðustu helgi. Ég var samt með alveg gífurlegar væntingar til hennar og það eyðilagði kannski aðeins fyrir. Batman Begins kom mér aðeins meira á óvart. Mér þótti hún vera alveg frábær og hún situr meira í mér heldur en Dark Knight. Ég viðurkenni samt alveg að Dark Knight sé mun betri mynd og Heath Ledger var náttúrulega alveg frábær. Ég held að það viti það allir og allir séu sammála um það. En samt er ég á þeirri skoðun að Batman Begins hafi verið meiri brautryðjandi. Að mínu mati var það fyrsta almennilega Batmanmyndin. Þótt Dark Knight sé betri þá finnst mér Batman Begins skipta meira máli.

Vanmetnasta myndin fannst mér vera Be Kind Rewind. Mér fannst hún alveg stórskemmtileg. Leit mjög vel út og þegar ég hugsa um fyndnustu atriði ársins þá er “Chinese Bamboo is very strong” mér ofarlega í huga. Þetta var alveg frábær hugmynd og mjög vel útfærð. Jack Black var óvenjugóður og Mos Def er náttúrulega algjör snilld. Danny Glover er líka klassískur. Ég held að Danny Glover sé svona Morgan Freeman fátæka mannsins. Svona eftir á að hyggja þá veit ég ekki hvort hún hafi verið vanmetin á heimsvísu eða bara í mínum vinahóp. Ég var allavega sá eini í þeirri bíóferð sem þótti hún góð. Allir sem með mér voru rökkuðu hana niður. Þetta var mjög frumleg mynd. Mér fannst líka eins og ég hafði heyrt nafnið Michel Gondry áður og núna þegar ég googla hann þá sé ég að hann gerði eternal sunshine of the spotless mind (fer ég með fleipur eða klippti valdís óskarsdóttir ekki þá mynd). En allavega þessar myndir eiga það sameiginlegt að hafa litið alveg svakalega vel út. Báðar einhvern veginn draumkenndar og bara mjög flottar.

James Bond mynd ársins var svo Quantum of Solace. Ég fór á hana eftir prófin og mér fannst hún bara allt í lagi. Í rauninni var hún voða svipuð og Casino Royale. Þó fannst mér eins og Casino Royale hafi verið með eitthvað sem Quantum hafði ekki. Það sem hrjáði eiginlega myndina var eiginlega hvað hún skipti oft um land og svæði. Einn daginn vorum við einhvers staðar á Ítalíu, síðan á Haítí, svo í Austurríki, svo í Bólivíu og svo í Eyðimörkinni í Bólivíu og að lokum í Rússlandi. Ég þurfi stuðning wikpedia til að muna alla þessa staði svo slæmt var það. Ég veit alveg á Bond-myndirnar eiga það til að vera svona en þetta var allt of mikið af hinu góða. Góðir punktar við myndina voru að Bondgellan var alveg gullfalleg og bardagaatriðin voru alveg frábær. Ofbeldið í henni var líka svo þurrt og hrátt og ógeðslegt að það var eiginlega alveg geggjað. En þótt að þetta hafi verið miðlungsbond þá þykir mér Daniel Craig vera mjög góður í hlutverkinu og gefur því einhvernveginn alveg nýja merkingu. Hann er miklu meiri svona killingmachine er til dæmis Brosnan.

En talandi um Brosnan þá má að lokum nefna að bíóferð ársins hafi án efa verið Mamma Mia! Singalong sýningin sem ég fór á í háskólabíói. Það er án efa skemmtilegasta bíóferð ég sem hef á ævi minni farið. Stóri salurinn fullur af syngjandi fólki (aðallega kvenfólki) allt að syngja hástöfum með þessari mynd. Myndin sjálf var líka mjög fín og söngatriðið með Pierce Brosnan var algjör SNILLD.. Það voru ótrúlega margir frábærir leikarar í henni og hún var mjög hress og tók sjálfa sig kannski ekki mjög alvarlega. Söngatriðið með Pierce Brosnan var algjör SNILLD. Það kemur mér alla vega ekkert á óvart að þetta hafi verið vinsælasta myndin þetta árið á Íslandi.

Ég ætlaði líka að skrifa um bæði stuttmyndahátíðina og RIFF. En ég ætla að reyna að skrifa líka færslu um Sólskinsdreng í kvöld og ég er ekki viss um að ég meiki að skrifa aðra færslu um árið 2008. Þetta er alveg orðið meira en nóg.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 9 stig.

Takk fyrir að minna mig á Be Kind Rewind. Ég var alveg búinn að gleyma henni. Hrikaleg snilld. Michel Gondry er frábær. Science of Sleep var líka algjör snilld.